31. mars 2011

Tillaga til þingsályktunar um norræna hollustumerkið, Skráargatið, 508 mál.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar norræna hollustumerkið Skráargat, 508. mál.Sameiginlega umsögn sína veittu umboðsmaður barna og talsmaður neytenda með bréfi dags. 31. mars 2011. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar norræna hollustumerkið Skráargat, 508. mál.Sameiginlega umsögn sína veittu umboðsmaður barna og talsmaður neytenda með bréfi dags. 31. mars 2011. 

Skoða tillögu til þingsályktunar norræna hollustumerkið Skráargat, 508. mál
Skoða feril málsins.  

Sameiginleg umsögn umboðsmanns barna og talmsanns neytenda

Nefndasvið Alþingis
B.t. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 31. mars 2011
UB:1103/4.1.1

Efni: Umsögn talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um þingsályktun um norræna hollustumerkið, Skráargatið, 508 mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 24. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna og talmanns neytenda um ofangreinda þingsályktunartillögu.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda fagna tillögunni enda hafa embættin unnið að því ötullega síðust árin að merkið verði innleitt hér á landi svo sem með því að vekja athygli ráðherra, Alþings og fleiri aðila. Hinn 15. mars 2009 tóku gildi leiðbeiningarreglur talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um aukna neytendavernd barna. Leiðbeiningarnar gera ráð fyrir að tekið verði upp opinbert hollustumerki. Í tengslum við þetta sendu embættin hinn 25. mars 2009 sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu bréf þar sem þau gerðu það að tillögu sinni að ráðuneytið myndi undirbúa í samráði við hagsmunaðila reglur sem kveði á um viðurkenningu á umræddu hollustumerki (sjá á talsmadur.is/Pages/637?NewsID="1016)." Þar var lagt til að hollustumerkið, skráargatið, yrði tekið upp ekki síðar en 1. janúar 2010. Ekki hafa borist viðbrögð frá ráðuneytinu við þessari tillögu.

Helstu rök fyrir jákvæðu, valfrjálsu hollustumerki felast í því að þannig er hægt að leiðbeina með skjótum hætti í hraða hversdagsins þeim neytendum og foreldrum – leikum sem lærðum – sem vilja velja holl matvæli óháð þekkingu á næringarfræði eða tungumálum o.s.frv. Þá er merkið þess eðlis að einfalt er að kenna börnum hvað felst í því. Rannsóknir sýna að neysluvenjur mótast snemma og því heppilegt að hafa einfaldar leiðbeiningar á því sviði sem auðvelda börnum og fullorðnum að velja holla matvöru.

Neytendur eiga rétt á vali og upplýsingum. Fleira en verð skiptir neytendur máli, svo sem gæði, öryggi og hollusta matvöru. Með hollustumerki er það upplýsta valfrelsi neytenda gert virkara.

Enginn sjálfkrafa kostnaður felst í því að taka upp slíkt merki. Vitneskja liggur yfirleitt fyrir um innihald matvæla hvað varðar sykur, salt, fitu, transfitusýru og trefjar. Sjáum við fyrir okkur að samkeppnislögmál og þrýstingur á þróun á hollum valkosti mun leiða markaðinn áfram í þessu efni.

Embættin hafa lagt ríka áherslu á að engin kvöð felst í því að taka slíkt merki upp nema sú takmörkun sem af eftirfarandi ákvæðum leiðbeininga embætta okkar leiðir (sjá á talsmadur.is/Pages/55?NewsID="1008):

Hollustumerki
Ef opinbert hollustumerki verður tekið upp skal leitast við að aðeins matvæli, sem uppfylla kröfur þess hollustumerkis, séu
- nærri kassa,
- auglýst í kringum bíósýningar og á DVD-diskum fyrir ung börn;
- markaðssett með aðstoð kaupauka sem höfðar sérstaklega til barna;
- markaðssett með þekktum teiknimyndafígúrum eða frægum persónum sem höfða sérstaklega til barna,
- auglýst eða boðin til sölu á áberandi stað í sundlaugum og íþróttamannvirkjum;
- framvegis með nafngift, sem gefur í skyn hollustu og eru sérstaklega ætluð fyrir börn.

Við teljum að viðbót í formi hollustumerkis yrði til mikilla bóta fyrir neytendur – einkum börn og foreldra þeirra sem þurfa á slíkum frjálsum valkosti að halda. Einnig álítum við mikilvægt að tilteknum stjórnsýsluaðila verði falin formleg umsjón og eftirlit með réttri notkun hollustumerkisins. Embættin óska eftir því að fá umsagnaraðild að því hvernig innleiðingu, kynningu og eftirfylgni hollustumerkis verður háttað af hálfu stjórnvalda.

Hvað varðar tímasetningu álítum við níu mánuði nægilegan frest til slíks undirbúnings og samráðs. Þess vegna leggjum við til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri viðbót að tímasetningin „eigi síðar en 1. janúar 2012“ bætist við tillöguna.

Virðingarfyllst,

 Gísli Tryggvason,                                                        Margrét María Sigurðardóttir,
talsmaður neytenda                                                             umboðsmaður barna 
                                                                                                                                                                    


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica