15. nóvember 2012

Tillaga til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með bréfi dags. 15. nóvember 2012.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með bréfi dags. 15. nóvember 2012.

Skoða tillögu til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 15. nóvember 2012

Efni: Tillaga til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 29. október sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Umboðsmaður barna hefur á undanförnum árum haft miklar áhyggjur af þeim börnum sem þurfa á þjónustu talmeinafræðinga að halda. Umboðsmanni berast reglulega ábendingar um að foreldrar hafi lent í vandræðum með að fá ríki og sveitarfélög til að taka þátt í kostnaði vegna talþjálfunar og að biðlistar séu of langir. Umboðsmaður hefur margoft bent á nauðsyn þess að bregðast við þessu vandamáli, meðal annars með bréfum, á fundum og í skýrslu sinni til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna árið 2010.

Umboðsmaður barna tekur undir það sem fram kemur í skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal-og málþroskaröskun, um að reglur og samningar Sjúkratrygginga Íslands hafi hingað til haft of mikil áhrif á tilhögun talþjálfunar.  Árið 2011 fundaði umboðsmaður með Sjúkratryggingum Íslands og fékk þær upplýsingar að nýr samningur við talmeinafræðinga myndi bæta stöðuna að einhverju leyti. Í þeim samningi kemur meðal annars fram að sveitarfélög skuli greiða fyrstu 18 tíma í talþjálfun, áður en greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga hefst. Hins vegar kom í ljós að mörg sveitarfélög töldu sig ekki bundin af þessum samningi og fengu foreldrar því talþjálfun vegna barna sinna ekki niðurgreidda. Skapaðist því mikil óvissa og fjölmörg börn hafa beðið mánuðum saman eftir þeirri þjónustu sem þau þurfa. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands niðurgreiðir stofnunin nú talþjálfun til foreldra og beinir síðan innheimtu að sveitarfélögum. Hins vegar er ljóst að málin eru enn ekki í nægilega góðum farvegi. Til dæmis telur umboðsmaður barna æskilegt að fjöldi niðurgreiddra tíma miðist við þörfina hjá hverju einstöku barni, en ekki stöðluðum viðmiðum. Þá eru biðlistar enn of langir. Loks telur umboðsmaður óásættanlegt að málin séu leyst með tímabundnum samningum, enda er hætta á að óvissa skapist um leið og gildistími þeirra rennur út. Er því mikil þörf á skoða málefni barna með tal- og málþroskaröskun heildstætt og koma með varanlegar lausnir á vandanum með hagsmuni barna að leiðarljósi. Umboðsmaður barna fagnar því sérstaklega ofangreindri tillögu og vonar að hún verði samþykkt.

Umboðsmaður barna þakkar velferðarnefnd fyrir það tækifæri að koma á fund nefndarinnar þann 12. nóvember sl., ásamt ýmsum sérfræðingum á sviði tal- og málþroskaröskunar. Umboðsmaður tekur undir þær ábendingar sem komu fram á fundinum og vonar að nefndin taki tillit til þeirra. Sérstaklega telur umboðsmaður mikilvægt að tryggja að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa eins fljótt og hægt er, enda getur snemmtæk íhlutun skipt miklu máli fyrir framtíð barna með tal- og málþroskaröskun. Sömuleiðis er mikilvægt að börnum á öllum aldri sé veitt sú þjónusta sem þau þurfa, hvort sem um er að ræða börn á leik-, grunn-, eða framhaldsskólaaldri.

Að lokum vill umboðsmaður barna vekja athygli velferðarnefndar á bréfi sem umboðsmaður sendi menntamálaráðherra um málefni barna með skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar. Bréfið má nálgast hér á heimasíðu embættisins, www.barn.is.

Virðingarfyllst,
Margrét  María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica