21. nóvember 2007

Tillaga til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 182/1992, mál nr. 7.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 182/1992, mál nr. 7.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 21. nóvember 2007.

Skoða tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 182/1992, mál nr. 7. 
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 21. nóvember 2007
Tilvísun: UB 0711/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 182/1992, mál nr. 7.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 13. nóvember 2007, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, hér eftir nefndur Barnasáttmálinn,  hefur verið staðfestur af 192 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og er hann sá mannréttindasamningur, sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu, en jafnframt að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, þau eigi sjálfstæð réttindi – óháð réttindum hinna fullorðnu.
 
Barnasáttmálinn hefur að geyma réttindi mjög víðtæks eðlis. Hann kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin til að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Samkvæmt samningnum ber aðildarríkjunum að kynna efni hans með virkum hætti jafnt fyrir börnum sem fullorðnum. Er það mikilvæg forsenda þess að borgararnir geti veitt stjórnvöldum virkt aðhald í þessu efni.

Undirrituð telur að með lögfestingu felist viss kynning á innihaldi hans. Líklegt verður að telja að vitnað yrði mun oftar í efni hans þegar hann er orðinn hluti af landsrétti og hægt yrði að beita honum fyrir dómstólum landsins og sækja rétt á grundvelli hans. Þá má í þessu samhengi geta þess að nefnd um réttindi barnsins sem starfar skv. 44.-45. gr. Barnasáttmálans hefur gert athugasemdir við fræðslu og kynningu á sáttmálanum sbr. 19. lið í athugasemdum hennar frá 31. janúar 2003.

Barnasáttmálinn hefur haft víðtæk áhrif á störf embættis umboðsmanns barna og í ljósi þess og ofangreinds styður undirrituð framkomna tillögu um lögfestingu Barnasáttmálans. 

Virðingarfyllst,

 _________________________________  
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica