14. nóvember 2013

Tillaga til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 70. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 70. mál. Umboðsmaður veitti umsögn sína með tölvupósti dags. 14. nóvember 2013.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 70. mál. Umboðsmaður veitti umsögn sína með tölvupósti dags. 14. nóvember 2013.

Skoða tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 70. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Velferðarnefnd

Reykjavík, 14. nóvember 2013
UB: 1311/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 70. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 7. nóvember sl, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Umboðsmaður barna ítrekar hér með meðfylgjandi umsögn, sem hann sendi inn um sambærilega tillögu á 141. löggjafarþingi.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna
________________________________________

Velferðarnefnd

Reykjavík, 15. nóvember 2012

Efni: Tillaga til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 152. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 29. október 2012, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Sú nefnd sem skipuð var til að semja frumvarp til breytinga á barnalögum, sbr. lög nr. 61/2012, fór ítarlega yfir ákvæði barnalaga um forsjá, umgengni og búsetu. Nefndin tók afstöðu gegn því að lögfesta ákvæði um jafna búsetu eða tvö lögheimili. Í niðurstöðum nefndarinnar er tekið fram að hvergi á Norðurlöndum er gert ráð fyrir að barn geti átt tvö lögheimili, enda mæli flest rök gegn því. Til dæmis gæti það ollið mikilli óvissu í framkvæmd varðandi það hvaða sveitarfélag ætti að veita ákveðna þjónustu. Sömuleiðis taldi nefndin ekki ástæðu til að heimila svokallaða jafna búsetu þar sem slíkt fyrirkomulag væri ekki vel til þess fallið að tryggja öryggi og stöðugleika í lífi barna. Í því sambandi benti nefndin á að þegar samkomulag milli foreldra er gott er ekkert því til fyrirstöðu að foreldrar geti samið um að haga samskiptum sínum á sama veg og ef gert væri ráð fyrir tvöfaldri búsetu í lögum. Umboðsmaður barna tekur undir niðurstöður nefndarinnar. Þar sem nú þegar hefur farið fram víðtæk endurskoðun á ákvæðum barnalaga telur umboðsmaður ekki ástæðu til að skipa aðra nefnd til þess að semja skýrslu um jafnt búsetuform barna.

Umboðsmaður barna telur það mikilvæg réttindi barna að fá að njóta samskipta við báða foreldra sína. Hins vegar er jafnt búsetuform ekki til þess fallið að tryggja þennan rétt. Í því sambandi þarf að gera skýran greinamun á jafnri búsetu annars vegar og jafnri umgengni hins vegar. Í þeim löndum þar sem barn getur átt jafna búsetu á tveimur heimilum fylgir ekki endilega jöfn umgengni þ.e. barn dvelst ekki endilega jafnlengi hjá báðum foreldrum. Sömuleiðis er jöfn búseta ekki forsenda þess að jöfn umgengni geti átt sér stað, eins og sést vel af framkvæmdinni hér á landi. Jafnt búsetuform barna snýst því að mati umboðsmanns barna fyrst og fremst um jafna stöðu foreldra en ekki hagsmuni og réttindi barna.

Í greinargerð með fyrrnefndri tillögu er meðal annars tekið fram að misbrestur sé á því að íslensk löggjöf styðji foreldra sem kjósa að ala upp börn sín saman án þess að búa saman. Er þar meðal annars vísað til þess að lögheimilisforeldri hefur töluvert meira að segja um hagi barns heldur en hitt foreldrið. Þó að það sé vissulega æskilegt að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns standi saman að öllum ákvörðunum sem varða barnið er ljóst að í ákveðnum tilvikum geta foreldrar verið ósammála. Mikilvægt er að tryggja að deilur foreldra bitni sem minnst á barninu. Er því að mati umboðsmanns barna nauðsynlegt að lögheimilisforeldri geti tekið daglegar ákvarðanir sem varða barnið í þeim tilvikum sem foreldrar geta ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu, til þess að líf barns geti haldið áfram þrátt fyrir deilur foreldra. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hagsmunir barns til þess að njóta stöðugleika og samfellu í daglegu lífi eiga að vega þyngra en hagsmunir foreldra af því að vera í sömu stöðu við ákvarðanatöku.

Í greinargerðinni er ennfremur vísað til þess að lögheimilisforeldri þiggi margvíslegan fjárstuðning á meðan hitt foreldrið nýtur ekki sams konar aðstoðar. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að tryggja báðum foreldrum barns þann opinbera stuðning sem þeir þurfa til að geta sinnt skyldum sínum gagnvart barni sínu. Sem dæmi má nefna að umboðsmaður gagnrýndi það í skýrslu sinnar til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna árið 2010 að Tryggingastofnun útvegi börnum aðeins hjálpartæki á lögheimili sínu, enda getur slíkt takmarkað verulega rétt barna með fötlun til þess að umgangast báða foreldra sína. Umboðsmaður telur hins vegar heppilegra að bregðast við málum sem þessum með því að breyta einstaka sérlögum í þá veru að tekið verði tillit til barnsins og stöðu beggja foreldra, eins og fyrrnefnd nefnd um breytingar á barnalögum lagði til. Þá má benda á að gott samstarf er forsenda þess að sameiginleg forsjá og jöfn umgengni geti átt sér stað og ættu foreldrar því að geta samið um það hvernig þeir skipta á milli sín kostnaði og opinberum greiðslum.

Ákvæði barnalaga um forsjá, umgengni og búsetu eiga fyrst og fremst að miða að því að tryggja hagsmuni barna en ekki jafnan rétt foreldra. Í því sambandi má benda á að það sem er barninu fyrir bestu á ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Virðingarfyllst,
     
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica