7. september 2016

Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur, 813. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 7. september 2016.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur, 813. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 7. september 2016.

Skoða tilllöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 7. september 2016
UB:1609/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur, 813. mál.

Vísað er í tölvupóst, dags. 24. ágúst sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021. 

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að marka skýrari stefnu í málefnum barna hér á landi. Hann vonar því að ofangreind tillaga verði samþykkt. Jafnframt verður þó að tryggja að henni verði fylgt eftir með markvissum hætti í framkvæmd, meðal annars með nægilegu fjármagni.

Umboðsmaður barna hefur þegar fengið nokkur tækifæri til að koma með tillögur og athugasemdir um efni stefnunnar. Ánægjulegt er að sjá að tekið hafi verið tillit til ýmissa ábendinga. Þó eru ýmis atriði sem umboðsmaður hefur bent á sem hann hefði gjarnan viljað sjá í stefnunni, svo sem um slysavarnir, styrkingu barnaverndar og barnaverndarúrræða og framkvæmd barnalaga. Þá vill umboðsmaður sérstaklega ítreka eftirfarandi ábendingar.

Umboðsmaður barna fagnar því að eitt af markmiðum tillögunnar sé að Barnasáttmálinn verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Margir þættir stefnunnar miða að þessu markmiði, svo sem tillaga A.5. um kostnaðar- og áhrifagreiningu opinberra útgjalda fyrir hagsmuni barna. Þó vantar enn upp á ýmsa þætti sem eru taldir grundvallarforsendur innleiðingar sáttmálans. Má til dæmis nefna heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um börn og stöðu þeirra. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað beint því til íslenska ríkisins að þróa slíkt kerfi, enda sé það forsenda þess að hægt sé að meta hvort öllum börnum sé í raun tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum, án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. gr. sáttmálans. 

Umboðsmaður barna telur sérstaklega jákvætt að í athugsemdum við þingsályktunartillöguna sé áréttað að umrædd stefna eigi að leiða til þess að tekið verði mið af Barnasáttmálanum í allri ákvarðanatöku og í öllu starfi sem varðar börn. Því miður er algengt að löggjafinn og stjórnvöld hér á landi taki ákvarðanir sem varða börn án þess að meta hvort slík ákvörðun sé raunverulega í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu og án þess að börnum sé veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Umboðsmaður barna hefði gjarnan viljað sjá tillögu sem myndi miða að því að tryggja að við alla ákvörðunartöku sem varðar börn fari fram sérstök greining og mat á því hvaða áhrif umrædd ákvörðun mun hafa á hagsmuni og réttindi barna (e. Child impact assessment). Þannig er hægt að tryggja að ákvarðanir séu betur í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og að tekið sé tillit til sjónarmiða barna, sbr. 12. gr. sáttmálans. 

Umboðsmaður barna er ánægður að sjá hversu mikil áhersla er lögð á fræðslu til barna, foreldra og fagfólks í stefnunni. Hann saknar þess þó að sérstaklega sé tekið fram að tryggja eigi öllum þessum aðilum fræðslu og þjálfun um réttindi barna. Samkvæmt Barnasáttmálanum er íslenska ríkinu skylt að kynna efni sáttmálans með virkum hætti fyrir börnum sem og fullorðnum. Mikilvægur þáttur í að tryggja að Barnasáttmálinn sé virtur í framkvæmd er að tryggja að börn, foreldrar og fagfólk þekki réttindi barna og virði þau í þeirra daglega lífi. Má í því sambandi benda á að í lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar til Íslands frá árinu 2011 mælist nefndin sérstaklega til þess að tryggð verði fullnægjandi og skipuleg þjálfun um réttindi barna fyrir allra faghópa sem starfa í þágu og með börnum.

Í tillögu D.3. er sérstaklega fjallað um aðkomu og samráð við foreldra í skólastarfi, en markmiðið er að auka þátttöku, aðkomu og samstarf foreldra í skólum. Umboðsmaður barna telur fulla þörf á því að hafa sambærilega tillögu um samráð við nemendur í skólastarfi og ákvörðunum sem varða menntamál almennt, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Margir skólar standa sig vel í því að efla lýðræðislega þátttöku nemenda innan skólans, bæði í gegnum skólaráð og nemendafélög. Því miður skortir þó verulega upp á þátttöku nemenda í ýmsum skólum. Enn fremur eru stærri ákvarðanir sem varða menntamál hjá sveitarfélögum og ríkinu oftar en ekki teknar án þess að leitað sé eftir samráði við nemendur. Á það til dæmis við um ákvarðanir um breytta einkunnagjöf, styttingu framhaldsskólans, breytingu á fyrirkomulag samræmdra prófa og ákvarðanir um sameiningar skóla.

Umboðsmaður barna fagnar þeim tillögum stefnunnar sem miða að því að auka öryggi, heilsu og velferð barna. Sérstaklega er jákvætt að stefnt sé að því að tryggja meiri samþættingu og samstarf í þjónustu við börn. Umboðsmaður barna hefði þó viljað sjá enn frekari tillögur um það hvernig megi auka möguleika barna til þess að geta sjálf leitað sér aðstoðar, til dæmis hjá heilsugæslunni og barnavernd. Mikilvægt er að tryggja að börn geti sjálf leitað sér aðstoðað og átt trúnaðarsamskipti við fagaðila, án tillits til vitneskju eða afstöðu foreldra. Þá þarf að tryggja að börn geti nálgast upplýsingar og fræðsluefni sem hæfa aldri þeirra og þroska, t.d. á netinu. Þá skiptir miklu máli að bjóða upp á umhverfi sem tekur mið af þörfum barna. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að börn sem vilja eða þurfa að leita eftir aðstoð án aðkomu foreldra, t.d. hjá barnavernd, eigi oft á tíðum ekki nógu greiðan aðgang að fagfólki. Væri því æskilegt að taka sérstaklega fram í fjölskyldustefnu að vinna skuli að því að auka aðgengi barna að stjórnsýslu og þjónustu ríkis og sveitarfélaga og gera hana barnvænni.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica