28. nóvember 2014

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna umtillögu til þingsályktunar um um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti 28. nóvember 2014.

 Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna umtillögu til þingsályktunar um um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti 28. nóvember 2014.

Skoða tillögu til þingsályktunar um um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd


Reykjavík, 28. nóvember 2014

Efni: Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 14. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, sbr. 24. gr. sáttmálans. Börn eiga ennfremur rétt á þeirri aðstoð sem þau þurfa til þess að ná sem bestum mögulegum andlegum, líkamlegum og félagslegum þroska, sbr. meðal annars 6. gr. sáttmálans. Eins og staðan er í dag eru þessi réttindi barna ekki nægilega vel tryggð hér á landi. Því miður eru mörg börn með hegðunar- og geðraskanir sem þurfa að bíða marga mánuði eða jafnvel einhver ár eftir greiningu og þjónustu við hæfi. Umboðsmaður barna telur brýnt að bæta stöðu barna með geðrænan vanda og fagnar því ofangreindri tillögu. Ef hún verður samþykkt mun það vonandi styðja við þá vinnu sem þegar er hafin við að móta geðheilbrigðisstefnu og tryggja að sérstakt tillit verði tekið til sérstöðu barna, sbr. þingsályktun um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlun sem samþykkt var á 143. löggjafarþingi (þingskjal 508 – 89. mál).

Mikilvægt er að tryggja börnum þá þjónustu sem þau þurfa eins fljótt og hægt  er, til þess að koma í veg fyrir að þau þrói með sér enn alvarlegri vanda. Er því jákvætt að fram komi í athugasemdum með tillögunni að stefnt skuli að því að auka forvarnir og koma á skimun á vanda meðal allra barna í skólum landsins. Þá tekur umboðsmaður barna undir að mikilvægt sé að tryggja aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, fjölskylduráðgjöf og sértækri þjónustu í nærumhverfi barna. Hann telur þó jafnframt að einn af meginþáttum tillögunnar ætti að vera að auka sérfræðiþjónustu innan skóla, til dæmis með því að tryggja öllum nemendum aðgang að skólasálfræðingum. 

Umboðsmaður barna hefur haft verulegar áhyggjur af börnum sem eru með tví- eða fjölþættan vanda, svo sem börn sem eru fötluð, með  þroska- og hegðunarvanda og glíma við vanlíðan. Sem dæmi má nefna að verulega skortir úrræði fyrir börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða og stefna eigin velferð í hættu vegna hegðunar- og vímuefnavanda. Eins og staðan er í dag falla þessi börn oft á milli kerfa, þar sem þau fá hvorki viðeigandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu né á vegum barnaverndar. Er því jákvætt að einn af þeim meginþáttum sem aðgerðaráætlunin á að byggja á sé skýr verkaskipting milli stofnana, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Umboðsmaður telur þó ástæðu til að taka skýrt fram að efla skuli samvinnu milli mismunandi kerfa og stofnana, þannig að tryggt sé að öll börn fái aðstoð og stuðning við hæfi. 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica