17. maí 2017

Tillaga flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði um vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum

Umboðsmanni barna barst umsagnarbeiðni frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir hönd velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Óskað var eftir umsögn um tillögu flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði um „vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum“. Tillaga var send til umsagnar í öllum norrænu löndunum.

Umboðsmanni barna barst umsagnarbeiðni frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir hönd velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Óskað var eftir umsögn um tillögu flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði um „vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum“. Tillaga var send til umsagnar í öllum norrænu löndunum. Umsögnina veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 17. maí 2017.

 Tillöguna er hægt að sækja hér á vef Norðurlandaráðs.     

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Íslandsdeild Norðurlandaráðs

 

Reykjavík, 17. maí 2017

 

Efni: Tillaga flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði um vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Norðurlöndum

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði, dags. 27. apríl sl., þar sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs óskar eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Umboðsmaður barna fagnar öllum tillögum sem miða að bættri geðheilsu barna og þjónustu við börn sem glíma við vanlíðan. Umboðsmaður hefur á undanförnum árum haft verulegar áhyggjur af því að börn á Íslandi hafi ekki nógu góðan aðgang að þjónustu í nærumhverfi sínu. Sem dæmi má nefna að það er misjafnt eftir búsetu hvort börn hafi aðgang að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum hér á landi. Jafnvel þar sem sálfræðingar eru starfandi er biðin eftir þjónustu oft mjög löng.

Umboðsmaður barna telur brýnt að auka möguleika barna á því að leita sér aðstoðar. Fagnar hann því þeirri tillögu að úrræði verði þróað sem geri börnum og ungmennum kost á að leita sér aðstoðar á netinu. Umboðsmaður tekur jafnframt undir þá tillögu að gerðar verði frekari rannsóknir á andlegri vanlíðan barna og þeirri aðstoð sem hentar vel í þeim tilgangi.

Sérstaklega er mikilvægt að tryggja að sú aðstoð sem verði í boði fyrir börn, verði ekki bundin samþykki foreldra. Á það við hvort sem hún fer fram í gegnum netið eða í persónu. Má í því sambandi benda á að í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um 12. gr. sáttmálans segir að aðildarríki eigi að innleiða lög og reglur sem tryggi börnum rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica