13. apríl 2012

Þýðingar á skýrslum íslenska ríkisins til og frá Barnaréttarnefndinni

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnaréttarnefndarinnar, verði aðgengilegar í lokaútgáfu en ekki sem drög að þýðingu. Þá hefur skýrsla íslenska ríkisins aðeins verið birt á ensku. Nauðsynlegt er að bæði fullorðnir og börn fái vitneskju um skýrslurnar, geti nálgast þær auðveldlega og kynnt sér þær á móðurmáli sínu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnaréttarnefndarinnar, verði aðgengilegar í lokaútgáfu en ekki sem drög að þýðingu. Þá hefur skýrsla íslenska ríkisins aðeins verið birt á ensku. Nauðsynlegt er að bæði fullorðnir og börn fái vitneskju um skýrslurnar, geti nálgast þær auðveldlega og kynnt sér þær á móðurmáli sínu. Umboðsmaður hefur vakið athygli innanríkisráðherra á þessu með bréfi dags. 23. mars sl. Bréfið er svohljóðandi:

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. mars 2012
UB: 1203/4.3.6

Efni: Lokaútgáfa á athugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þýðing á skýrslu íslenska ríkisins til nefndarinnar.

Lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnaréttarnefndarinnar, hafa verið þýddar að mestu og var þeim m.a. dreift á fundi í nóvember 2011 þar sem sendinefnd Íslands sat fyrir svörum og kynnti lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar. Umboðsmaður barna vekur hins vegar athygli á því að enn virðist aðeins vera um drög að íslenskri þýðingu að ræða auk þess sem umboðsmanni reyndist erfitt að finna þýðinguna á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Telur umboðsmaður barna mikilvægt að þær verði aðgengilegar í lokaútgáfu en ekki sem drög að þýðingu. Óskar umboðsmaður eftir því að fá lokaútgáfu athugasemdanna í íslenskri þýðingu þegar hún er tilbúin.

Í 6. mgr. 44. gr. Barnasáttmálans segir að hvert aðildarríki skuli sjá um að skýrslur aðildarríkja séu auðveldlega tiltækar almenningi í landi sínu. Hér er átt við skýrslur um það sem aðildarríki hafa gert til að koma í framkvæmd réttindum þeim sem viðurkennd eru í Barnasáttmálanum og hvernig miðað hefur að beitingu þeirra. Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að fyrrnefnt ákvæði hefur ekki verið uppfyllt þar sem skýrsla íslenska ríkisins hefur aðeins verið birt á ensku. Barnaréttarnefndin mældist einnig til þess í lokaathugasemdum sínum að slík yrði gert.

62. Að auki mælist nefndin til þess að þriðja og fjórða reglulega skýrslan auk skriflegra svara aðildarríkisins og tengdra tilmæla (þ.m.t. athugasemda) nefndarinnar verði gerð víða aðgengileg á tungumálum landsins, þ.m.t. (en ekki eingöngu) á Netinu, fyrir almenning, borgaraleg samtök, fjölmiðla, æskulýðssamtök, faghópa og börn, í þeim tilgangi að stuðla að umræðu og vitund um samninginn og valfrjálsar bókanir hans, framkvæmd hans og eftirlit.

Einnig er að finna leiðbeiningar í almennri athugasemd Barnaréttarnefndarinnar nr. 5 sem fjallar um 6. mgr. 44. gr. sáttmálans um skyldur aðildarríkja að gera skýrslur sínar og önnur fylgiskjöl aðgengilegar almenningi en þar segir:

71. If reporting under the Convention is to play the important part it should in the process of implementation at the national level, it needs to be known about by adults and children throughout the State party.  The reporting process provides a unique form of international accountability for how States treat children and their rights.  But unless reports are disseminated and constructively debated at the national level, the process is unlikely to have substantial impact on children’s lives. 

72. The Convention explicitly requires States to make their reports widely available to the public; this should be done when they are submitted to the Committee. Reports should be made genuinely accessible, for example through translation into all languages, into appropriate forms for children and for people with disabilities and so on. The Internet may greatly aid dissemination, and Governments and parliaments are strongly urged to place such reports on their web sites. 

73. The Committee urges States to make all the other documentation of the examination of their reports under the Convention widely available to promote constructive debate and inform the process of implementation at all levels.  In particular, the Committee’s concluding observations should be disseminated to the public including children and should be the subject of detailed debate in parliament.  Independent human rights institutions and NGOs can play a crucial role in helping to ensure widespread debate.  The summary records of the examination of government representatives by the Committee aid understanding of the process and of the Committee’s requirements and should also be made available and discussed.

Mikilvægt er að íslenska ríkið geri sér grein fyrir þeirri skyldu sem hvílir á því samkvæmt Barnasáttmálanum. Þannig geta skýrslur aðildarríkja skapað aðhald frá borgurum og haft áhrif á réttindi barna. Því er nauðsynlegt að bæði fullorðnir og börn fái vitneskju um skýrsluna, geti nálgast hana auðveldlega og kynnt sér hana á móðurmáli sínu. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að innanríkisráðherra hafi þetta í huga og þá sérstaklega við næstu skýrslu.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á ub@barn.is eða hringja í síma 552 8999.

Virðingarfyllst,

__________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica