28. desember 2011

Þjónusta við börn með skertan málþroska

Í svari frá menntamálaráðuneytinu við bréfi umboðsmanns barna kemur fram að vænta megi bættrar þjónustu til handa börnum með skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar.

Í byrjun nóvember sendi umboðsmaður barna menntamálaráðherra bréf þar sem hann vekur athygli á málefnum barna með skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar. Þjónusta við þessi börn og fjölskyldur þeirra er mismunandi eftir sveitarfélögum og gæði og magn þjónustu veltur að miklu leyti á getu og vilja foreldra til að berjast fyrir réttindum barna sinna. Í bréfinu bendir umboðsmaður á mikilvægi þess að þessi börn og foreldrar þeirra hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og þjónustu táknmálsfræðinga og annarra sérfræðinga á þessu sviði. Bréfið, sem dagsett er 1. nóvember 2011 má sjá hér.

Svarbréf barst frá menntamálaráðuneytinu barst 19. desember en þar segir að framkvæmdanefnd í málefnum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra einstaklinga hafi nú lokið störfum. Í skýrslu til ráðherra mennta- og velferðarmála, sem kynna átti 15. desember eru ítarlega ábendingar um nauðsyn fyrir samhæfða þjónustu og snemmtækt inngrip í málefnum ofangreindra barna og fjölskyldna þeirra. Þá segir að það sé von ráðuneytisins að með tillögum nefndarinnar verði málefni umræddra barna gerð að forgangsmáli og að vænta megi bættrar þjónustu þeim til handa.  Hér má sjá bréfið frá menntamálaráðuneytinu, dags.19. desember 2011.

Umboðsmaður barna mun reyna að fylgjast með þróun þessa málaflokks og þiggur allar ábendingar varðandi þessi mál. 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica