5. október 2010

Þingmenn minntir á réttindi barna

Vegna umræðu um fjárlagafrumvarpið og niðurskurð hefur umboðsmaður barna sent öllum alþingismönnum bréf þar sem hann minnir á skyldu íslenskra stjórnvalda við börn. Með bréfinu fylgdi eintak af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í styttri útgáfu.

Vegna umræðu um fjárlagafrumvarpið og niðurskurð hefur umboðsmaður barna sent öllum alþingismönnum bréf þar sem hann minnir á skyldu íslenskra stjórnvalda við börn. Með bréfinu fylgdi eintak af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í styttri útgáfu.

Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík, 4. október 2010

Kæri þingmaður

Vegna umræðu um niðurskurð á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra vill umboðsmaður barna koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og þjónustu umfram aðra þjóðfélagsþegna. Íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Mikilvægt er að halda sérstaklega vel utan um börn á þessum erfiðu tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er til að þau nái líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska, sbr. 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Umboðsmaður barna vill minna þingmenn á 3. gr. Barnasáttmálans sem felur í sér að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að skylt er að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert með einum eða öðrum hætti.

Umboðsmaður barna vill að lokum minna á að mikilvægt er að leyfa börnunum að tjá sig og taka réttmætt tillit til skoðana þeirra þegar um er að ræða ákvarðanir sem varða þau beint, en það sjónarmið er í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans.

Virðingarfyllst,
 
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica