9. apríl 2014

Þátttaka barna í skoðana- og markaðskönnunum

Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna hefur umboðsmaður ákveðið að endurskoða álitsgerð embættisins um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum og gefa hana út aftur.

Reglulega berast umboðsmanni barna erindi vegna þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Ýmist eru það foreldrar, kennarar eða aðilar sem vilja afla upplýsinganna sem hafa samband og eru skiptar skoðanir á því hvort rétt eða rangt sé að leggja sumar tegundir kannana fyrir börn og þá hvernig.

Ekki hafa verið sett sértök lög eða opinberar reglur um framkvæmd kannana. Í desember árið 2000 gaf umboðsmaður barna út álitsgerð um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna hefur umboðsmaður ákveðið að endurskoða fyrrnefnda álitsgerð og gefa hana út aftur. Hún er birt hér í heild sinni:

 Álitsgerð umboðsmanns barna um þátttöku 
barna í skoðana- og markaðskönnunum 

Útgefin í apríl 2014

Í desember árið 2000 gaf þáverandi umboðsmaður barna út álitsgerð um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Á undanförnum árum hefur áhersla á rétt barna til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem þau varða og rétt þeirra til að taka ákvarðanir í eigin málum aukist. Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna hefur umboðsmaður ákveðið að endurskoða fyrrnefnda álitsgerð og gefa hana út aftur.

Réttur barna til að tjá skoðanir sínar

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 13. gr. Barnasáttmálans er tjáningarfrelsi barna einnig veitt sérstök vernd en þar segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Sömuleiðis hefur Barnasáttmálinn að geyma ákvæði sem eiga að tryggja börnum rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Þar sem börnum skortir oft reynslu og þroska til að gæta að hagsmunum sínum sjálf er gengið út frá því að foreldrar beri meginábyrgð á velferð barna sinna og ráði persónulögum högum þeirra, sbr. 28. gr. barnalaga. Foreldrar þurfa þó, eins og aðrir, að virða réttindi barna sinna. Er foreldrum því ekki heimilt að takmarka tjáningarfrelsi barna nema slíkt sé talið nauðsynlegt til að vernda hagsmuni þeirra sjálfra eða annarra.

Þátttaka barna í markaðs- og skoðanakönnunum

Kannanir og rannsóknir á skoðunum fólks og viðhorfum verða sífellt ríkari þáttur við stefnumótun í vestrænum samfélögum, bæði í viðskiptum og hjá stjórnvöldum. Þegar metið er hvenær heimilt er að leggja slíkar kannanir fyrir börn þarf að gera skýran greinarmun á rannsóknum eftir tilgangi þeirra. Rannsóknum í vísindaskyni er ætlað að leiða í ljós almennan sannleik til aukins skilnings, framþróunar vísinda og bætts þjóðfélags. Markaðsrannsóknir eru hins vegar fyrst og fremst unnar fyrir seljendur vöru eða þjónustu í hagnaðarskyni. Ljóst er að margar slíkar rannsóknir fara fram á netinu og því erfitt að hafa eftirlit með þátttöku barna. Engu að síður er mikilvægt að markaðsaðilar og aðrir í samfélaginu sýni börnum þá virðingu sem þau eiga rétt á og hlífi þeim við óæskilegu áreiti.

Umboðsmaður barna telur að markaðsrannsóknum, til að meta söluhæfi vöru eða þjónustu, eigi almennt ekki að beina að börnum. Á þessu geta verið undantekningar, t.d. þegar skoðunarkönnun meðal barna um gæði þjónustu getur óumdeilanlega bætt hana og þannig verið börnum til hagsbóta. Sem dæmi um slíkt má nefna könnun meðal nemenda um það hvaða mat þeir kjósa helst í mötuneytum skóla. Ef beina á markaðsrannsókn að börnum þarf almennt að fá leyfi frá foreldrum eða öðrum forsjáraðilum fyrst. Foreldrum ber þó ávallt að hafa samráð við börn sín og taka tillit til vilja þeirra í samræmi við aldur og þroska. Með hliðsjón af því að börn öðlast stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og því að börn eru almennt talin geta borið mikla ábyrgð frá 15 ára aldur telur umboðsmaður barna þó rétt að miða við að börn sem lokið hafa skyldunámi geti sjálf tekið ákvörðun um þátttöku í markaðsrannsóknum, svo lengi sem þær hæfa aldri þeirra og þroska.

Önnur sjónarmið eiga við þegar um er að ræða skoðanakannanir eða rannsóknir sem ráðist er í af vísindalegum forsendum og geta haft jákvæð áhrif við mótun stefnu í málefnum sem varða börn. Skoðanakannanir og félagsvísindalegar rannsóknir á viðhorfum barna geta verið mikilvæg aðferð til að koma sjónarmiðum barna á framfæri. Má í því sambandi benda á að kannanir meðal nemenda geta verið mikilvægur liður í eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. VII. kafli leikskólalaga, VIII. kafli grunnskólalaga og VII. kafli framhaldsskólalaga.

Í framkvæmd virðist hingað til hafa verið gengið út frá því að foreldrar eða aðrir forsjáraðilar þurfi að samþykkja þátttöku barna í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni. Er því til stuðnings meðal annars bent á að í forsjá felist bæði réttur og skylda til að ráða persónulegum högum barns. Sú staðreynd að foreldrar fara með forsjá barna sinna getur vissulega takmarkað sjálfsákvörðunarrétt barna í ýmsum málum. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að börn eru fullgildir einstaklingar, með sjálfstæð réttindum. Foreldrum og þeim sem koma að málefnum barna með einum og öðrum hætti ber því að virða réttindi barna, þar á meðal til að koma skoðunum sínum og öðrum upplýsingum á framfæri. Þó að foreldrar beri ábyrgð á meiriháttar ákvörðunum í lífi barna sinna eiga börn rétt að að taka sjálfstæðar ákvarðanir í ýmsum málum, án aðkomu foreldra. Í barnalögum er ekki beinlínis tekið á því í hvaða tilvikum börn eiga rétt á að taka ákvarðanir sjálf. Í öðrum lögum má þó finna ýmis ákvæði sem veita börnum rétt til með- eða sjálfsákvörðunar. Sem dæmi um það má nefna að börn geta sjálf tekið ákvörðun um nauðsynlega læknismeðferð og skráningu í eða úr trúfélagi frá 16 ára aldri. Þá ráða öll börn sjálfsafla- og gjafafé sínu, nema um háar fjárhæðir sé að ræða. Þegar lög skera ekki úr um það hvort börn geti tekið ákvörðun án aðkomu foreldra þarf að meta það út frá réttindum barna og aðstæðum að öðru leyti. 

Í ljósi þess að börn eiga rétt á að tjá sig og láta skoðanir sínar frjálslega í ljós á öllum málum sem þau varðar telur umboðsmaður barna að börn ættu almennt að geta samþykkt þátttöku í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni, að því gefnu að þær hæfi aldri og þroska þeirra barna sem um ræðir. Umboðsmaður telur því ekki rétt að gera kröfu um samþykki foreldra þegar slíkar kannanir eru lagðar fyrir, til dæmis í grunn- og framhaldsskólum, enda gæti slíkt takmarkað tjáningarfrelsi barna. Hins vegar er æskilegt að foreldrar séu upplýstir um fyrirhugaðar kannanir og rannsóknir, sérstaklega þegar um yngri börn er að ræða.

Ábyrgð hinna fullorðnu

Mikilvægt er að þeir aðilar sem gera markaðsrannsóknir eða rannsóknir í vísindaskyni á Íslandi hafi í huga þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Kynna þarf fyrir þátttakendum með hæfilegum fyrirvara að rannsókn/könnun sé fyrirhuguð og hún kynnt fyrir þeim þannig að þeir átti sig á efni og tilgangi hennar. Sömuleiðis er mikilvægt að tryggt sé að foreldrar fái nauðsynlegar upplýsingar. Gera verður bæði forsjáraðilum og börnum grein fyrir því að barni er ekki skylt að taka þátt í rannsókn/könnun í heild eða að hluta.

Varðandi þátttakendur rannsóknar/könnunar verður að gera grein fyrir því að nafnleyndar og trúnaðar verði gætt og að frumgögnum verði eytt að rannsókn/könnun lokinni. Eins og áður segir verður að gefa börnum tækifæri til að hafna því að taka þátt, hvort sem það er að hluta eða öllu leyti. Þegar um markaðsrannsóknir er að ræða verður að veita forsjáraðilum tækifæri til að hafna þátttöku barna undir 16 ára aldri, að höfðu samráði við þau sjálf.

Sem fyrr segir telur umboðsmaður barna ekki rétt að foreldrar geti komið í veg fyrir þátttöku barna í vísinda- og félagsrannsóknum ef börn skilja eðli rannsóknar og samþykkja þátttöku. Þó verður að sjálfsögðu að taka mið af aldri og þroska barna sem og eðli rannsóknar. Í leik-, grunn- og framhaldsskólum er til dæmis mikilvægt að skólastjórar og kennarar tryggi að rannsóknir og kannanir raski ekki skólastarfi og íþyngi ekki nemendum. Einnig þarf að ganga úr skugga um að sú rannsókn sem leggja á fyrir hæfi aldri þeirra barna sem taka þátt. Sömuleiðis er eðlilegt að kynna fyrirhugaða rannsókn með hæfilegum fyrirvara fyrir öðrum aðilum skólasamfélagsins, svo sem í gegnum skólaráð eða foreldrafélagið. Þannig er foreldrum gert kleift að fylgjast með þeim rannsóknum sem eru lagðar fyrir börn í skólum.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica