21. nóvember 2011

Þarf að auka neytendavernd barna?

Óskað er eftir athugasemdum frá neytendum - ekki síst foreldrum barna - samtökum og öðrum hagsmunaaðilum í tilefni af endurskoðun leiðbeinandi reglna um neytendavernd barna.

Eins og boðað var snemma á árinu hafa talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafið endurskoðun á leiðbeiningarreglum um neytendavernd barna sem embættin gáfu út fyrir tæpum þremur árum. Við endurskoðunina er lagt mat á reynsluna af leiðbeiningunum undanfarin tæp þrjú ár.

Nýsett fjölmiðlalög hafa áhrif
Auk þess að endurskoða þarf reynsluna af leiðbeiningunum þarf að meta hvort nýsett lög um fjölmiðla hafa áhrif á inntak reglnanna. Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa lagt mat á að hve miklu leyti leiðbeiningarnar frá 2009 skarast við fjölmiðlalögin, sem sett voru vorið 2011, og munu hitta fulltrúa fjölmiðlanefndar til þess að ræða það mál og leggja áherslu á neytendavernd barna.

 Allar ábendingar vel þegnar
Eins og fram er komið munu embættin í vetur meta hverju breyta þarf í leiðbeinandi reglum sem settar voru fyrir tveimur árum og tóku gildi 15. mars 2009 á alþjóðadegi neytenda - þ.á m. hvort bæta þarf við þær eða fella eitthvað brott.

Leiðbeiningarreglurnar voru settar eftir um 3ja ára samráð þessara embætta við um 100 aðila sem höfðu hagsmuna að gæta eða láta sig varða málefni barna og hagsmuni og réttindi neytenda. Verður hluta þessara aðila boðið á fund í janúar í því skyni að leggja mat á þau atriði sem sérstök ástæða þykir til.

Auk þessara aðila er almenningi, svo og samtökum og öðrum hagsmunaaðilum, hér með boðið að koma á framfæri ábendingum um hvað betur megi fara í leiðbeinandi reglum um neytendavernd barna.

Getur það bæði átt við

  • atriði sem kann að vera ofaukið og
  • það sem talið er vanta
  • auk annarra athugasemda.

Áhugasömum - svo sem foreldrum, börnum og öðrum neytendum - er sem endranær velkomið að senda ábendingar um leiðbeiningarreglurnar til talsmanns neytenda eða umboðsmanns barna.

Einnig eru ábendingar vel þegnar um hugsanlega annmarka í öðrum reglum og framkvæmd sem varðar neytendavernd barna.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica