28. apríl 2010

Talnaefni um starfsfólk á leikskólum í árslok 2009

Hagstofan hefur birt talnaefni um starfsfólk á leikskólum í desember 2009.

Hagstofan hefur birt talnaefni um starfsfólk á leikskólum í desember 2009. Í fréttatilkynningu nr. 83/2010 segir:

Aldrei áður hafa fleiri starfað á leikskólum á Íslandi
Í desember 2009 störfuðu 5.596 starfsmenn í 4.813 stöðugildum við leikskóla á Íslandi og hefur starfólk á leikskólum aldrei verið fleiri. Árið 2008 störfuðu 5.568 starfsmenn í 4.761 stöðugildi við íslenska leikskóla. Starfsmönnum hefur fjölgað um 28 milli ára, sem er 0,5% fjölgun. Þetta er lítil fjölgun miðað við árið á undan þegar starfsfólki fjölgaði um 7,9%. Fjöldi leikskólabarna jókst milli áranna 2008-2009 um 2,3% eða 427 börn.  Starfsfólki fjölgar því minna en leikskólabörnum. Körlum sem starfa í leikskólum fækkar milli ára. Nú starfa 222 karlar í leikskólum en voru 240 fyrir ári síðan.  

Brottfall starfsmanna aldrei verið lægra
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2008 og 2009 var 20,8% og hefur ekki mælst lægra milli tveggja ára síðan Hagstofa Íslands hóf að birta tölur um brottfall starfsmanna árið 1999. Ef litið er á  brottfall síðustu 10 ára er það 25,9% að meðaltali. Starfsmannavelta er meiri meðal ófaglærðra starfsmanna. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, eða 30,2% en var 47,6% árið á undan. Brottfallið er hlutfallslega minnst meðal leikskólastjóra (5,5%), aðstoðarleikskólastjóra (7,7%) og deildarstjóra (8,6). Starfsmannavelta í þessum hópi var þó umtalsvert meiri árið á undan eða 11,7-18,2%. Það skal tekið fram að hér er um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2009 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Menntuðu starfsfólki fjölgar á milli ára
Starfsfólki við uppeldi og menntun leikskólabarna, sem lokið hefur uppeldismenntun, fjölgar umtalsvert frá árinu 2008. Þegar litið er á stöðugildi starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum hefur stöðugildum sem mönnuð eru leikskólakennurum fjölgað um 93 (6,2%), starfsfólki sem hefur aðra uppeldismenntun fjölgar um 80  (17,7%) á meðan ófaglærðum starfsmönnum við uppeldis- og menntunarstörf fækkaði um 124 (5,2%). Alls eru því 47,2% stöðugilda starfsfólks nú mönnuð starfsfólki með uppeldismenntun en voru 44,9% í desember 2008.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica