28. apríl 2010

Talnaefni um börn í leikskólum í árslok 2009

Hagstofan hefur birt talnaefni um börn í leikskólum landsins í árslok 2009.

Hagstofan hefur birt talnaefni um börn í leikskólum landsins í árslok 2009. Í fréttatilkynningu nr. 82/2010 segir:

Börn í leikskólum hafa aldrei verið fleiri
Í desember 2009 sóttu 18.699 börn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 421 frá desember 2008 eða um 2,3%. Þessi fjölgun skýrist að hluta til af stærri árgöngum barna á leikskólaaldri auk þess sem 6 nýir leikskólar tóku til starfa á árinu. Hlutfall barna sem sækja leikskóla hefur einnig hækkað í öllum aldurshópunum. Þá má greina breytingar á viðverutíma barnanna. Fram til ársins 2008 var stöðug aukning á fjölda barna sem dvöldu í leikskólanum í 9 klst. eða lengur. Í desember 2009 hefur þeim börnum fækkað um 230 börn og að sama skapi fjölgar börnum sem dvelja í sjö og átta tíma í leikskólum á hverjum degi.

Börnum með erlent móðurmál fjölgar aftur
Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku hefur fjölgað ár frá ári frá því að gagnasöfnun Hagstofu Íslands um leikskóla hófst árið 1998. Haustið 2008 fækkaði þeim hins vegar í fyrsta sinn en fjölgar nú aftur haustið 2009 og hafa þau aldrei verið fleiri. Nú eru 1.614 börn í leikskólum skráð með erlent móðurmál eða 8,6% barnanna. Af þeim eru 423 börn sem hafa pólsku sem móðurmál og er það fjölmennasta erlenda tungumálið eins og undanfarin ár. Þá fjölgar börnum með spænsku um 78% og er nú 71 barn í leikskólum sem hefur spænsku sem móðurmál en voru 40 fyrir ári síðan. Börnum sem hafa víetnömsku  og ítölsku að móðurmáli fjölgar um helming milli ára.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fjölgar aftur eftir fækkun 2008
Í desember 2009 nutu 1.362 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, og er það 7,3% allra leikskólabarna. Hlutfall barna sem njóta stuðnings hefur tvöfaldast frá árinu 1998 þegar 3,7% barna nutu sérstaks stuðnings í leikskóla.

Börnum á einkareknum leikskólum fjölgar áfram
Í desember 2009 voru starfandi 282 leikskólar hér á landi. Alls voru 243 reknir af sveitarfélögum en 39 af einkaaðilum. Hlutfallslega fjölgar börnum í einkareknum leikskólum (9,6%) meira en í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum (1,2%). Sumarið 2009 voru flestir leikskólar lokaðir í 3-4 vikur eða 152 leikskólar. Þá voru 70 leikskólar ýmist opnir allt sumarið eða lokaðir í 1-2 vikur en voru 135 talsins sumarið 2008.

Talnaefni


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica