Svar við bréfi umboðsmanns barna um ósk á rannsókn á afdrifum barna
Embætti umboðsmanns barna barst svar þann 12. janúar sl. frá forsætisráðuneytinu við bréfi embættisins um ósk á rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið á vegum ríkisins í úrræðum.
Þann 6. október 2025 sendi umboðsmaður barna bréf til forsætisráðuneytisins þar sem óskað var eftir að framkvæmd yrði rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið á vegum ríkisins í úrræðum skv. 79. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í bréfinu kom m.a. fram að umboðsmaður telji mikilvægt að lagt sé mat á hvort meðferðakerfið skili tilætluðum árangri og hvort veitt þjónusta raunverulega gagnist þeim skjóstæðingum sem þjónustuna þiggja.
Í svarbréfi forsætisráðuneytisins kemur fram að ekki sé ástæða til að framkvæma slíka rannsókn að svo stöddu. Í svarbréfinu segir:
„Þrátt fyrir að mikilvægt kunni að vera að greina stuðning stjórnvalda við börn og ungmenni í vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra á undanförnum áratugum, þ.m.t. að kanna afdrif barna telur forsætisráðuneytið skynsamlegri ráðstöfun, að svo stöddu, að verja tíma og fjármunum í brýnni aðgerðir. Að mati ráðuneytisins er mikilvægt að forgangsraða aðgerðum til framtíðar í þágu bættra og fjölbreyttari úrræða fyrir börn og ungmenni í vímuefnavanda, sem og fyrir fjölskyldum þeirra. Við þá forgangsröðun er horft til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á stuðning stjórnvalda við börn og ungmenni með vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra."
Hægt er að lesa svar forsætisráðuneytisins hér.