24. ágúst 2007

Svæfingar í tannlæknaþjónustu fyrir börn

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa tannlæknar ekki getað sinnt þeim sjúklingum sem þurfa á svæfingu að halda vegna þess að svæfingarlæknar hafa ekki viljað sinna því starfi á stofum tannlækna af faglegum ástæðum og vegna kjaramála.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa tannlæknar ekki getað sinnt þeim sjúklingum sem þurfa á svæfingu að halda vegna þess að svæfingarlæknar hafa ekki viljað sinna því starfi á stofum tannlækna. Ástæður þessa eru fyrst og fremst faglegar þar sem aðstaða og öryggi við barnasvæfingar á tannlæknastofum er ekki talin viðunandi. Þetta ástand hefur bitnað illa á fötluðum börnum og ungum börnum með mjög skemmdar tennur sem þurfa á svæfingu að halda vegna tannviðgerða.

Umboðsmaður barna skrifaði heilbrigðisráðherra erindi vegna þessa, dags. 15. ágúst sl. þar sem farið er fram á að fá upplýsingar um umfang vandans, hvað valdi honum og loks hvað ráðuneytið hyggist gera til að leysa þessi mál.

Í svarbréfi frá heilbrigðisráðuneytinu, dags. 17. ágúst sl., segir að ráðuneytið hafi í sumar unnið að því að finna lausn á þessum vanda og nú hafi St. Jósefsspítali í Hafnarfirði lýst sig reiðubúinn til samvinnu í þessu máli og munu tannlæknar fá inni á skurðstofu þar ásamt fagfólki spítalans f.o.m. 24. ágúst. Ráðuneytið vonast til að nú sé fundin lausn til frambúðar og er jafnvel hugað að því að styrkja þessa starfsemi enn frekar.

Umboðsmaður fagnar því að þessi lausn sé fundin en mun áfram fylgjast með málinu og beita sér fyrir því að tryggt sé að börn og ungmenni fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica