27. desember 2011

Strætó býður börnum á grunnskólaaldri sömu kjör og framhaldsskólanemum

Eftir að hafa fengið ábendingu frá umboðsmanni barna ákvað Strætó bs. að bjóða börnum á grunnskólaaldri að kaupa nemakort á sömu kjörum og framhaldsskólanemar eiga kost á. Með þessari breytingu njóta öll börn því sömu kjara nema börn á aldrinum 0-6 ára ferðast endurgjaldslaust með strætó.
Umboðsmanni barna bárust í haust athugasemdir vegna mismunandi fargjalda Strætó bs. Mismunurinn fólst í því að framhaldsskólanemum gafst tækifæri á að kaupa svokölluð nemakort sem gilda fyrir skólaáriðmeð sérstökum afslætti. Grunnskólanemendur nutu ekki sömu kjara hvað þetta varðar og var ekki heimilt að kaupa fyrrnefnt nemakort. Þeir síðarnefndu þurftu að kaupa Bláa kortið sem gildir í 9 mánuði og kostar töluvert meira en áðurnefnd nemakort. Ungmenni á aldrinum 12-18 ára borguðu því sama verð og fullorðnir fyrir tímabilskort en nutu þó sérkjara þegar kemur að kaupum á farmiðaspjöldum.
 
Að þessu tilefni sendi umboðsmaður barna bréf, dags. 24. október 2011, til að koma því á framfæri að umboðsmanni þætti eðlilegast að yngri börn myndu njóta sömu kjara og eldri börn þegar kemur að kaupum á tímabilskortum og hafa sömu tækifæri til kaupa á nemakortum.
 
Svar við bréfi umboðsmanns barst svo rétt fyrir jól. Í bréfinu, sem er dags. 20. desember 2011, segir að stjórn Strætó bs. hafi ákveðið að frá og með 1. janúar 2012 verði nemakort einnig í boði fyrir börn á grunnskólaaldri. Með þeirri aðgerð bjóðast sömu kjör handa öllum börnum að því undanskildu að börn á aldrinum 0-6 ára ferðast endurgjaldslaust með strætó. Telur Strætó því að jafnræðis sé nú gætt í verðlagningu.
 
Umboðsmaður barna fagnar góðum viðtökum Strætó við ábendingu embættisins enda ljóst að umræddar breytingar eru til mikilla hagsbóta fyrir börn á grunnskólaaldri sem nota strætó.
 
 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica