13. apríl 2011

Stjórnlög unga fólksins – Leyfum röddum ungmenna að heyrast

Umboðsmaður barna, UNICEF og Reykjavíkurborg kynna í dag verkefnið Stjórnlög unga fólksins. Markmiðið er að tryggja að skoðanir íslenskra barna og ungmenna heyrist við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður barna, UNICEF og Reykjavíkurborg kynna í dag verkefnið Stjórnlög unga fólksins. Markmiðið er að tryggja að skoðanir íslenskra barna og ungmenna heyrist við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Opnuð hefur verið vefsíðan www.stjornlogungafolksins.is. Þar er að finna nýstárleg myndbönd sem unnin hafa verið fyrir börn og ungmenni um grunnþætti stjórnarskrárinnar.

Á vefsíðunni geta börn og ungmenni horft á myndböndin og hlaðið upp eigin skoðunum í tengslum við stjórnarskrá lýðveldisins og framtíðarsýn sína. Þar geta skólar, leikskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og ungmennaráð einnig nálgast kennsluleiðbeiningar stjórnarskrána. Útbúið hefur verið kennsluefni fyrir öll stig grunnskólans sem og leikskóla.

Laugardaginn 16. apríl 2011 verður þing ungmennaráða síðan haldið í Iðnó, Reykjavík. Þangað er fulltrúum ungmennaráða sveitarfélaga boðið til að vinna álit út frá spurningum tengdum umfjöllunarefnum stjórnarskrárinnar.

Að þinginu loknu verður unnið úr niðurstöðum þess ásamt því efni sem hlaðið verður upp á vefsíðu verkefnisins. Sett verður saman skýrsla sem kynnt verður fjölmiðlum og afhent fulltrúum stjórnlagaráðs og Alþingi.

Í 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að börn eigi rétt á því að hafa áhrif á mál sem þau varða. Taka skuli tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Endurskoðun á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er grundvallarmál sem getur haft víðtæk áhrif á skipulag samfélagsins í heild sinni. Því er mikilvægt að leitað sé eftir skoðunum barna og ungmenna.

Umboðsmaður barna hvetur alla til að kynna sér myndböndin og skoða vefsíðuna!

Hér eru Stjórnlögin unga fólksins síðan á Facebook.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica