16. nóvember 2011

Stjórnlög unga fólksins vekja athygli út fyrir landsteinana

Stjórnlög unga fólksins verða í forgrunni á ráðstefnu Evrópuráðsins sem fram fer á sunnudag og mánudag. Þar verða samankomnir ráðherrar Evrópuráðsins og ætla þeir að ræða hvernig byggja megi upp barnvænni  Evrópu. Stjórnlög unga fólksins voru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, umboðsmanns barna og UNICEF á Íslandi. Markmiðið var að láta raddir barna og ungmenna heyrast við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Stjórnlög unga fólksins

verða í forgrunni á ráðstefnu Evrópuráðsins sem fram fer á sunnudag og mánudag. Þar verða samankomnir ráðherrar Evrópuráðsins og ætla þeir að ræða hvernig byggja megi upp barnvænni  Evrópu. Ráðstefnan fer fram í Mónakó.

Evrópuráðið bauð fulltrúum frá Stjórnlögum unga fólksins að kynna verkefnið og þykir það mikill heiður. Þess utan er framlag Íslands í pallborði strax á eftir setningu ráðstefnunnar.

Karólína, prinsessa af Hannover, býður til ráðstefnunnar sem á að hafa stefnumótandi áhrif á sviði barnaréttar. Fyrir Íslands hönd situr Kristinn Jóhannsson fyrir svörum en hann var einn af þeim sem sótti þing ungmennaráða í vor, Stjórnlög unga fólksins.

Flókin mál einfölduð
Stjórnlög unga fólksins voru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, umboðsmanns barna og UNICEF á Íslandi. Markmiðið var að láta raddir barna og ungmenna heyrast við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Fræðslumyndbönd voru m.a. útbúin þar sem stjórnarskráin var skoðuð með nýstárlegum hætti. Um tímamótaverkefni var að ræða – þar sem flókin umfjöllunarefni voru einfölduð og sett fram í máli og myndum. Myndböndin  eru á vefsíðunni www.stjornlogungafolksins.is,  og þar gátu börn og ungmenni auk þess sett fram sínar skoðanir  á stjórnarskránni  og dregið upp sína framtíðarsýn. Einnig hafa verið útbúnar kennsluleiðbeiningar um stjórnarskrána og eru þær á vefsíðunni.

Þann 16. apríl fór fram þing ungmennaráða í Iðnó. Fulltrúum ungmennaráða sveitarfélaga var boðið til að vinna álit út frá spurningum tengdum umfjöllunarefnum stjórnarskrárinnar. Horft var á myndböndin og málin rædd í þaula. Þótti þingið takast afar vel . Að því loknu var sett saman skýrsla sem síðan var kynnt fjölmiðlum og afhent formanni stjórnlagaráðs.

„Hlakka til að sjá hver sýn annara ríkja verður“
„Það er gaman til þess að vita að hugmyndin á bak við Stjórnlög unga fólksins hafi vakið athygli út fyrir landsteinana. Þeim hjá Evrópuráðinu fannst verkefnið óvenjulegt, spennandi og áhrifaríkt og vildu að ráðherrar Evrópuráðsins fengju að heyra af því. Þetta er mikill heiður,“ segir Adda Rúna Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.

„Ég hlakka til að sjá hver sýn annara ríkja verður á verkefnið okkar og hvort að eitthvað svipað verði gert annars staðar,“ segir Kristinn Jóhannsson sem undirbýr sig af kappi þessa dagana fyrir kynninguna.

Ráðstefnan í Mónakó hefst á degi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 20. nóvember.

 „Í Barnasáttmálanum segir að börn eigi rétt á því að hafa áhrif á mál sem þau varða og taka skuli tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Stjórnlög unga fólksins byggja alfarið á þeirri hugmynd,“ segir Bergsteinn Jónsson hjá UNICEF á Íslandi.

„Það er einstaklega ánægjulegt að vita að fleiri fái nú að heyra af verkefninu og við erum sérlega spennt fyrir þessu öllu saman.“


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica