21. febrúar 2018

Stefna í málefnum ungmenna - bréf til menntamálaráðuneytisins

Eftirfarandi bréf var sent til menntamálaráðherra varðandi æskulýðsstefna.

Eftirfarandi bréf var sent til Menntamálaráðherra varðandi æskulýðsstefnu eða stefnu í málefnum ungmenna. 

 

Menntamálaráðherra

Lilja Alfreðsdóttir

Menntamálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

                                                                                                Reykjavík, 19. febrúar 2018

 

Efni: Æskulýðsstefna eða stefna í málefnum ungmenna

Engin æskulýðsstefna eða stefna í málefnum ungmenna er við lýði á Íslandi – sjá http://www.youthpolicy.org/factsheets/. Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014 - 2018 var unnin af Æskulýðsráði og gefin út í ágúst 2014. Sú stefnumótun tekur eingöngu til æskulýðsmála í þröngum skilningi, þ.e. starf æskulýðsfélaga í landinu en ekki til annarra þátta sem varða börn og ungmenni, s.s. menntun, atvinnuþátttöku eða almenna líðan.

Sjá:https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/ritogskyrslur/stefnum_aeskulydsmal_2014.pdf.

Samkvæmt skýrslunni er gert ráð fyrir úttekt á einstökum atriðum hennar á þessu ári 2018.

Embætti umboðsmanns barna leggur til að á næstu árum verði mótuð heildstæð stefna í málefnum ungmenna og eftirfarandi markmið verði sett inní fjármálaáætlun:

Mótuð verði heildstæð stefna í málefnum ungmenna sem miði að því að efla virkni ungs fólks í samfélaginu og lýðræðisþátttöku. Í slíkri stefnu verði tekið til þátttöku í æskulýðsstarfi, íþróttum og menningu. Einnig verði litið til geðheilbrigðismála, menntamála og fleiri þátta sem hafi afgerandi áhrif á stöðu ungmenna í samfélaginu. Jafnframt verði leitað leiða til að efla rannsóknir á sviði æskulýðsmála.

Með þessu markmiði verði stefnt að því að heildstæð drög að stefnu stjórnvalda í málefnum ungmenna liggi fyrir á kjörtímabilinu í samvinnu við helstu hagsmunaaðila með útfærðri aðgerðaáætlun. Í stjórnarsáttmála er fjallað um félagslegan ójöfnuð, forvarnir og lýðheilsu, m.a. í mennta- og heilbrigðiskerfinu og stuðning við íþróttir og æskulýðsstarf. Þessi áhersla er einnig í samræmi við þriðja heimsmarkmið SÞ.

Mikilvægt er að frá byrjun sé gott samráð ólíkra ráðuneyta, sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra sem vinna á þessu sviði. Brjóta má verkefnið niður í eftirfarandi verkþætti en í heild má ætla að mótun stefnunnar taki 2-3 ár. Leitað verður leiða til að sækja þekkingu til fræða og vísindasamfélagsins með þátttöku framhaldsnema.

 

 

 

Verkefnið taki til eftirfarandi þátta:

1)      Erlendar fyrirmyndir. Úttekt á stefnum nágrannalanda í málefnum ungmenna þar sem tekin verði afstaða til efnissviða, við hvaða aldurmörk væri miðað og önnur álitaefni sem tengjast afmörkun verkefnisins.

2)      Staða einstakra málaflokka. Mat lagt á þá málaflokka sem stefnan eigi að taka mið af. Fundir og samráð við þá sem vinna að einstökum málaflokkum. Óskað eftir tillögum og athugasemdum.

3)      Rannsóknir og tölulegar upplýsingar um stöðu ungs fólks. Mat á stöðu rannsókna og upplýsinga sem liggja fyrir um stöðu ungs fólks í samfélaginu. Meðal annars með gögnum úr einstökum rannsóknum, gögnum Hagstofunnar og fleiri.

4)      Úrvinnsla og mat á einstökum málaflokkum. Tillögur að stefnu og aðgerðaráætlun.

Hvað er stefna í málefnum ungmenna?

Mikilvægt er að móta í upphafi þá þætti sem stefna í málefnum ungmenna á að taka til og afmarka þann aldurshóp sem um er að ræða. Sambærilegar stefnur stjórnvalda í nágrannalöndunum eru viðamiklar og taka til allra þátta sem varða börn og ungmenni. Á vefsíðunni www.youthpolicy.org er að finna stefnur í málefnum ungmenna í þeim löndum sem hana er að finna. Í Noregi tekur slík stefna til 6 meginþátta: 1) forvarnir, 2) skólar og menntun, 3) tómstundir, 4) stuðningur við börn og ungmenni t.d. þeirra sem eru með alvarlegar hegðunarraskanir, 5) ungir afbrotamenn og 6) þekking og rannsóknir.

Sjá:http://www.youthpolicy.org/factsheets/country/norway/ og http://www.youthpolicy.org/library/wpcontent/uploads/library/Norway_2003_National_Report_On_Youth_Policy_In_Norway_eng.pdf Í Svíþjóð tekur stefnan hins vegar til menntunar, atvinnu, menningar og afþreyingar, þátttöku, heilbrigðis og öryggis.

Almennt snýr stefna í málefnum ungmenna (Youth policy) að börnum og ungmennum frá 13 – 25 ára og tekur til allra málefna sem varðar börn og ungmenni þvert á kerfi (cross sectoral). Meðal þeirra mála sem gott væri að taka hér upp í stefnu er tölfræði um börn, þátttaka í samfélaginu, lýðræði, tómstundir og íþróttir, menning og listir, geðheilbrigðismál, menntamál o.s.frv. Gerð stefnu í málefnum ungmenna krefst samtals aðila sem vinna að málefnum barna og ungmenna sem og ungmennanna sjálfra, til dæmis ungmennaráða.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna

 

Afrit sent forsætisráðherra


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica