11. febrúar 2020

Staða á innleiðingu Barnasáttmálans

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana þar sem farið er fram á að gerð sé grein fyrir þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til og sem miða að því að innleiða Barnasáttmálann í starfseminni.

Í lok árs 2018 samþykkti Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um umboðsmann barna, þar sem embætti umboðsmanns barna er meðal annars falið að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur og vinna að því að tryggja þátttöku barna í allri stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum.

Sem aðili að Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, ber íslenska ríkinu að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum komi til framkvæmda.

Áframhaldandi innleiðing Barnasáttmálans er viðvarandi verkefni sem krefst þess að allar stofnanir sem aðkomu hafa að málefnum barna með einum eða öðrum hætti eða vinna að málefnum sem börn láta sig varða, vinni að því að bæta aðgengi barna að þjónustu og upplýsingum og tryggi nauðsynlega þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og stefnumótun þar sem við á.

Umboðsmaður barna mun afla upplýsinga um þær aðgerðir sem ráðuneyti og stofnanir hafa gripið til í því skyni að innleiða Barnasáttmálann í starfsemi sinni, til þess að unnt sé að leggja mat á stöðu innleiðingar sáttmálans og þörfina á frekari aðgerðum. Hann hefur því sent bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana þar sem farið er fram á að gerð sé grein fyrir þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til og sem miða að því að innleiða Barnasáttmálann í starfseminni.

Embætti umboðsmanns barna hyggst gera grein fyrir þeim niðurstöðum í skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi og verður þeim fylgt eftir með frekari könnunum á næstu árum til þess að fylgjast með framþróuninni.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica