13. apríl 2016

Spurningar til fjölmiðla varðandi umfjöllun um börn

Umboðsmaður barna hefur sent tölvubréf til nokkurra fjölmiðla þar sem bent er á þau sjónarmið og ákvæði laga sem mikilvægt er að hafa í huga þegar fjölmiðlar fjalla um einstök börn eða málefni barna. Í bréfinu er einnig óskað eftir upplýsingum um starfsreglur eða viðmið þeirra varðandi umfjöllun um börn.

Umboðsmaður barna hefur sent tölvubréf til nokkurra fjölmiðla  þar sem bent er á þau sjónarmið og ákvæði laga sem mikilvægt er að hafa í huga þegar fjölmiðlar fjalla um einstök börn eða málefni barna. Í bréfinu er einnig óskað eftir upplýsingum um starfsreglur eða viðmið þeirra varðandi umfjöllun um börn.

Bréfið er svohljóðandi:

Til fjölmiðla

Reykjavík, 11. apríl 2016
UB: 1604/9.1.0

Efni: Umfjöllun um börn og starfsreglur fjölmiðla – spurningar

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og skoðanir fólks mótast að miklu leyti af umfjöllun þeirra. Sérstaklega mikilvægt er að fjölmiðlar vandi til verka þegar þeir fjalla um málefni sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Þetta endurspeglast meðal annars í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en þar kemur fram að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt geti verið að takmarka önnur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til þess að tryggja börnum þá vernd sem þau þurfa. Á það meðal annars við um tjáningarfrelsi. Ennfremur má benda á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 á það sem er börnum fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Þegar fjölmiðlar birta efni sem varðar börn með einum eða öðrum hætti er mikilvægt að þeir hugi að þeirri sérstöðu sem börn eiga að njóta og hafi hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Að mati umboðsmanns barna er það því miður ekki alltaf raunin. Má til dæmis nefna að reglulega birtast viðtöl þar sem foreldrar tjá sig um viðkvæm málefni barna sinna í fjölmiðlum, þar sem börn eru jafnvel nafngreind og myndir birtar af þeim. Börnin sjálf hafa oft lítið um það að segja hvort eða hvar slík umfjöllun birtist eða ekki.  Opinská umfjöllun um viðkvæm málefni barna getur valdið þeim vanlíðan og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Í 17. gr. Barnasáttmálans er sérstaklega fjallað um mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra gagnvart börnum. Samkvæmt e-lið 17. gr. sáttmálans skulu aðildarríkin stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað geti velferð þeirra. Ljóst er að umfjöllun um einkalíf barna og myndbirtingar af þeim geta í sumum tilfellum talist efni sem getur skaðað velferð barna.

Að hluta til er e-liður 17. gr. Barnasáttmálans uppfylltur með fjölmiðlalögum nr. 38/2011. Má í því sambandi m.a. nefna 28. gr., 38. gr. og 41. gr. laganna sem fjalla með einum eða öðrum hætti um vernd barna gegn efni í fjölmiðlum. Þrátt fyrir ákvæði fjölmiðlalaga telur umboðsmaður barna að þörf sé á frekari reglum sem leggja þá skyldu á fjölmiðla að gæta sérstakrar varkárni þegar verið er að fjalla um börn og tryggja að umfjöllun sé ekki til þess fallin að hafa meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif á börn. Umboðsmaður barna hefur skorað á Blaðamannafélag Íslands að endurskoða siðareglur sínar og bæta við ákvæði sem miðar sérstaklega að því að vernda börn, eins og gert hefur verið sums staðar á Norðurlöndum. Því miður hefur það enn ekki verið gert.

Umboðsmaður barna veit til þess að einhverjir fjölmiðlar hafa sett eigin starfsreglur eða viðmið. Óskar hann því eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1. Hefur þinn fjölmiðill sett sér sérstakar starfsreglur eða viðmið sem miða að því að tryggja vandaða umfjöllun?

     a. Ef svo er, er sérstaklega fjallað um börn í þeim reglum?

     b. Ef ekki, er fyrirhugað að setja slíkar reglur?

2. Ná umræddar reglur eða viðmið bæði til þess þegar starfsfólk skrifar fréttir eða greinar og þess þegar birt er innsent efni frá öðrum?

3. Leitast þinn fjölmiðill við að tryggja sérstaka vernd barna með einhverjum öðrum hætti?

Loks óskar umboðsmaður barna eftir afriti af þeim reglum sem unnið er eftir, auk annarra upplýsinga sem kunna að skipta máli í þessu sambandi. Rétt er að taka fram að umboðsmaður barna starfar eftir lögum nr. 83/1994 um umboðsmann barna, en samkvæmt 5. gr. þeirra laga er einstaklingum, félögum og samtökum einstaklinga skylt að veita umboðsmanni barna allar upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

Virðingarfyllst, 
Margrét María Sigurðardóttir, 
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica