26. mars 2020

Kórónuveiran: Spurt og svarað

Það er alls ekki skrítið að finna fyrir kvíða og vera hrædd um það sem er að gerast í heiminum í dag út af kórónavírusnum. Margir finna fyrir því þegar það hefur áhrif á mann sjálfan eða umhverfið í kringum mann. Umboðsmaður barna hefur tekið saman svör við nokkrum spurningum sem gætu komið upp. 

Umboðsmaður hvetur öll börn til að hafa samband með tölvupósti á ub@barn.is ef þau hafa fleiri spurningar. Einnig er hægt að senda skilaboð hér á vefsíðunni okkar .

Ég hef áhyggjur af því að ég eða einhver í fjölskyldunni minni smitist.

Það er eðlilegt að hafa áhyggjur þegar allir í heiminum eru að tala um sama hlutinn. Það eru margir sem hafa áhyggjur eða finna fyrir kvíða núna vegna þess að veiran er ný og við höfum aldrei upplifað svona ástand áður. En margir fullorðnir eru að gera sitt besta til að passa að fólk smitist ekki af veirunni og að þeir sem smitast fái góða læknisaðstoð. Fáir af þeim sem smitast af veirunni verða alvarlega veikir en það þarf samt að fylgjast með þeim öllum. Þó að sumir verði mikið veikir þá jafna langflestir sig sem fá veiruna. Það eru ekki enn til bóluefni gegn kórónuvírusnum en það eru margir að vinna í því.

Ef þú eða einhver í fjölskyldunni þinni smitast þá er líklegt að þið verðið ekki alvarlega veik. Margir finna fyrir hita, hósta og beinverkjum (sem eru svipaðir og vaxtaverkir) meðan öðrum líður bara eins og þeir hafi fengið venjulegt kvef. Svo þegar talað er um hve margir hafa dáið eða eru á spítala þá er gott að muna að flestir sem veikjast eru heima þar sem þeir geta legið í sófanum og horft á bíómyndir og þætti og eru bara að hvíla sig vel til að verða aftur frískir.

Hvað gerist núna, ætti ég að vera hrædd/ur?

Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða eða hræðslu og þú ert ekki ein/n um það. Sérfræðingar eins og t.d. sóttvarnalæknir, landlæknir, ríkisstjórnin og fleiri aðilar eru að fylgjast vel með og gera það sem þarf að gera til að þetta að ástandið verði betra. Fyrir okkur hin sem eru ekki sérfræðingar getur það auðvitað valdið kvíða og hræðslu að vita ekki neitt og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgja þeim reglum sem búið er að setja. Þó að erfitt sé að vita hvað eigi eftir að gerast eða hversu lengi við erum að vinna á veirunni þá þá þurfum við ekki að vera hrædd. Ef þú ert kvíðinn eða hrædd/ur þá gæti verið gott fyrir þig að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Þú getur einnig alltaf sent okkur skilaboð í gegnum heimasíðuna okkar eða á tölvupósti. Eins og margir þá vinnum við hjá umboðsmanni barna stundum heima hjá okkur og við svörum alltaf skilaboðum og spurningum frá börnum eins fljótt og við getum.

Ég get ekki gert það sem ég er vanur að gera.

Það getur vissulega verið erfitt að geta ekki gert það sem maður er vanur að gera eins og að leika við vini eftir skóla, taka þátt í íþróttum eða tómstundum og fleira. Þegar okkur leiðist eða okkur líður illa yfir því þá er gott að muna að við erum að koma í veg fyrir að veiran smitist og höldum okkur sjálfum öruggum í leiðinni. Svo það er jákvætt!

Núna gæti verið tími til að finna upp á einhverju sem við getum gert heima og lætur okkur líða vel og við erum ekki vön að gera venjulega. Það er til dæmis hægt að púsla, spila, byggja lego, baka, skoða barnamyndir af öllum í fjölskyldunni eða lesa saman bók. Þið getið til dæmis lesið upphátt til skiptis, eða búið til brandara eða gátur. Svo er líka hægt að finna myndbönd á netinu og gera æfingar eða fara saman í hugleiðslu, karókí-, danskeppni eða bara velja lög til skiptis að hlusta á. Nú hafa flestir meiri tíma og því um að gera að nota hugmyndaflugið og það er til dæmis hægt að gera skemmtilegar vísindatilraunir eða fara saman í leiki. Hér eru fleiri hugmyndir um það sem hægt er að gera með fjölskyldunni.

Þó svo að skólinn sé takmarkaður þá er líka nauðsynlegt að vinna að skólverkefnum heima og gera það sem við erum vön að gera á hverjum degi eins og hægt er. Mörgum líður einnig betur þegar það er hreint í kringum þá og nú er svo sannarlega tími til þess að taka vel til í herberginu sínu og kannski gera breyta því í leiðinni.

Bangsi í glugga

 

5 ráð til þeirra sem hafa áhyggjur

Talaðu við fullorðinn sem þú treystir.

Ræddu við einhvern fullorðinn sem þú treystir eins og til dæmis foreldra þína, eldri systkini, ömmu og afa, frænda eða frænku (t.d. með því að hringja, nota skype, facetime eða annað). Segðu honum hvernig þér líður og hvað þú ert að hugsa um á þessum tímum.

Gerðu venjulega hluti.

Ef þú hefur áhyggjur eða finnur fyrir kvíða getur verið gott að gera eitthvað sem þú ert vön eða vanur að gera, eitthvað sem róar þig og lætur þér líða betur. Gerðu t.d. eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni þinni sem fær þig til að hugsa um eitthvað annað en veiruna.

Veldu vandlega það sem þú horfir á eða hlustar.

Það er ekki auðvelt að forðast fréttir um kórónavírusinn þessa dagana. En ef þú ert áhyggjufull eða áhyggjufullur af því að horfa á fréttir reyndu þá að forðast eins og þú getur þær fréttir sem gera þig enn hræddari. Ef einhver nálægt þér er að tala um eitthvað sem gerir þig hrædda/nn farðu þá til viðkomandi og biddu þann um að hætta því. Þú getur valið það sem þú hlustar á en það er þó alltaf gott að fá réttar upplýsingar og frá aðila sem maður treystir eins og til dæmis með því að horfa á Krakkafréttir. Þú getur líka beðið einhvern fullorðin sem þú treystir til að fylgjast með fréttum fyrir þig og láta þig vita ef eitthvað gerist sem gott væri að vita.

Hugsaðu um að fullorðnir eru að reyna að stoppa smit.

Það eru margir að reyna að finna lausn á vandanum og eru að gera sitt besta til að allt verði eins og það á að vera. Það eru margir sérfræðingar að reyna að finna bóluefni til að stoppa veiruna og eru að reyna að koma í veg fyrir fleiri smitist og að allir sem þurfa fái góða læknisaðstoð.

Leitaðu ráða

Það er víða hægt að fá einfaldar upplýsingar um kórónavírusinn. Á heimasíðu Landlæknis er til dæmis hægt að fá góðar upplýsingar fyrir börn. Einnig getur þú alltaf haft samband við umboðsmann barna hér í gegnum vefsíðuna okkar.

Þessi texti byggir á efni frá Bris.se og er þýtt og staðfært af starfsfólki umboðsmanns barna.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica