22. október 2014

Spurningalistar með samræmdum prófum

Umboðsmaður barna sendi í síðustu viku Námsmatsstofnun ábendingu um það sem að hans mati mátti fara betur í könnun sem lögð var fyrir hluta nemenda sem tóku samræmd próf í september. Í spurningalistanum voru nemendur m.a.  spurðir um samræmdu prófin, samskipti, líðan og framtíðarsýn varðandi búsetu, starf og barneignir.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börnum sé sagt frá því að þau mega sleppa því að svara einstaka spurningum eða könnun í heild ef þau vilja. Einnig telur umboðsmaður að almennt sé ekki rétt foreldrar geti ákveðið einhliða að börn þeirra skuli ekki taka þátt í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni, að því gefnu að þær hæfi aldri þeirra og þroska.  

Námsmatsstofnun brást fljótt og vel við og sendi umboðsmanni tölvupóst viku síðar þar sem segir að stofnunin muni bregðast við ábendingu umboðsmanns barna með því að breyta kynningu á sambærilegum könnunum í framtíðinni svo nemendum megi vera ljós réttur þeirra til að svara eða sleppa spurningum eða könnuninni sem heild. Við þá endurskoðun mun vera stuðst við álit umboðsmanns barna um þátttöku barna í skoðana- og markaðskönnunum.

Hér er bréf umboðsmanns barna sem sent var í tölvupósti 15. október sl.:

Til Námsmatsstofnunar

Reykjavík 15. október 2014
UB:1410/6.2.2

 

Efni: Spurningalistar með samræmdum prófum

Í lok september hafði starfsmaður umboðsmanns barna samband við Námsmatsstofnun og óskaði eftir því að fá sendan spurningarlista sem lagður var fyrir nemendur sem tóku samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk, ásamt þeim leiðbeiningum sem honum fylgdu. Spurningarlistinn og bréf til foreldra bárust umboðsmanni með tölvupósti 1. október sl.

Umboðsmaður barna getur ekki séð að það komi fram í ofangreindum gögnum að nemendur hafi val um þátttöku eða að þeir geti sleppt því að svara einstökum spurningum. Einungis virðist gengið út frá því að foreldrar geti hafnað þátttöku barna sinna. Umboðsmaður gerir athugasemd við að ekki hafi verið tryggt að nemendur vissu að þeir gætu sjálfir ákveðið að svara ekki umræddum spurningalista í heild eða að hluta. Á það ekki síst við í ljósi þess að sumar spurningarnar voru þess eðlis að erfitt getur verið fyrir börn á þessum aldri að svara þeim, sbr. einkum spurningar nr. 11 og 13.

Umboðsmaður barna hvetur Námsmatsstofnun til þess að tryggja að framvegis þegar kannanir verða lagðar fyrir í skólum komi skýrt fram að nemendur geti hafnað þátttöku í heild eða að hluta. Má í þessu sambandi benda á álit umboðsmanns barna um þátttöku barna í skoðana- og markaðskönnunum.  

Umboðsmaður barna hvetur Námsmatsstofnun til að kynna sér þau sjónarmið sem koma fram í ofangreindu áliti. Sérstaklega má vekja athygli á því að umboðsmaður barna telur almennt ekki rétt að foreldrar geti ákveðið einhliða að börn þeirra skuli ekki taka þátt í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni, að því gefnu að þær hæfi aldri þeirra og þroska. Börn eiga að fá aukið svigrúm til að taka sjálfstæðar ákvarðanir eftir því sem þau eldast og þroskast.

Endilega hafið samband í síma 552-8999 ef frekari upplýsinga er óskað.

Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica