16. október 2012

Slysavarnir barna - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent velferðarráðherra bréf þar sem bent er á mikilvægi þess að slysavörnum barna verði fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera.

Umboðsmaður barna hefur sent velferðarráðherra bréf þar sem bent er á mikilvægi þess að slysavörnum barna verði fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera.

Bréfið er svohljóðandi:

Velferðarráðuneytið
b.t. Guðbjartar Hannessonar
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. september 2012

Efni: Slysavarnir barna

Á hverju ári berast umboðsmanni barna fjöldi ábendinga og fyrirspurna varðandi slys á börnum og slysavarnir. Þessi málaflokkur snertir í raun öll svið samfélagsins, s.s. heimili, skóla, leiksvæði, umferð og íþrótta- og tómstundastarf. Til að leiðbeina almenningi varðandi slysavarnir barna þarf umtalsverða sérþekkingu, t.d. á þroska barna og líkamlegri getu þeirra sem og á sviði heilbrigðisvísinda. Einnig er nauðsynlegt að þekkja vel til stjórnsýslunnar og regluverksins. Umboðsmaður barna telur nauðsynlegt að almenningur eigi kost á ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningum fagfólks á sviði slysavarna. Einnig er mikilvægt að allt fagfólk sem vinnur með börnum sé frætt um helstu slysahættur fyrir börn í því umhverfi sem það vinnur í.

Umboðsmanni barna barst athugasemd þess efnis að óljóst væri hvar slysavörnum barna verði fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera. Ef svo er, telur embættið mikilvægt að leysa úr þessu máli sem fyrst. Samvinna ólíkra fagaðila gæti einnig verið málaflokknum til framdráttar. Umboðsmaður barna telur brýnt að tekið verði á þessum málum sem fyrst þannig að slysum á börnum fækki og þeim verði tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst. Umboðsmaður barna óskar eftir upplýsingum frá velferðarráðherra hvort fyrrnefnd athugasemd sem umboðsmanni barst eigi við rök að styðjast og ef svo er, hvort og þá hvernig hann hyggist leysa úr því.

Ef nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband í síma 552 8999 eða senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is.

Virðingarfyllst,

_______________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica