14. júní 2007

Skýrsla SÞ um ofbeldi gegn börnum - Ályktun um viðbrögð

Á fundi hinna norrænu embætta umboðsmanna barna sem haldinn var á dögunum var samþykkt ályktun um að hvetja ríkisstjórnir landanna til að vinna að því að á allsherjarþinginu 2007 verði skipaður sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra SÞ til að fylgja eftir tillögum um viðbrögð við ofbeldi gegn börnum.

Í október 2006 var lögð fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna skýrsla um ofbeldi gegn börnum sem unnin var af sérfræðinganefnd á vegum framkvæmdastjóra SÞ. Skýrsla þessi dregur afar dökka mynd af ástandi mála í þessu efni í heiminum. Ljóst er af skýrslunni að af þeim 191 aðildarríkjum sem fullgilt hafa Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hafa aðeins 18 ríki samþykkt löggjöf sem bannar hvers konar ofbeldi gegn börnum en Ísland er eitt þeirra. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldis gegn börnum geta verið. Ofbeldi gegn varnarlausum börnum er aldrei verjandi og má ekki líðast.

Á árlegum fundi hinna norrænu embætta umboðsmanna barna sem haldinn var í Finnlandi 31. maí - 1. júní ræddu umboðsmenn um skýrsluna og samþykktu ályktun um að hvetja ríkisstjórnir landanna til að vinna að því að á allsherjarþinginu 2007 verði skipaður sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra SÞ til að fylgja eftir tillögum um viðbrögð við þessum vanda er fram koma í skýrslu þessari.

Umboðsmaður barna hefur ritað Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þar sem ályktuninni er komið á framfæri.

Opna ályktun umboðsmanna barna í Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi og Noregi og Barnaráðsins í Danmörku.

Opna bréf umboðsmanns barna til forsætisráðherra, dags. 14. júní 2007.

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica