17. febrúar 2010

Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni

Vegna útkomu skýrslu um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar sem send var út með fréttatilkynningu 3/2010 frá fjármálaráðuneytinu hinn 28. janúar 2010 vildi umboðsmaður barna koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður í bréfi dags. 12. febrúar 2010.

Vegna útkomu skýrslu um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar sem send var út með fréttatilkynningu 3/2010 frá fjármálaráðuneytinu hinn 28. janúar 2010 vildi umboðsmaður barna koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður í bréfi dags. 12. febrúar 2010.

Skoða fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins nr. 3/2010 
Skoða skýrsluna Heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar 


 

Athugasemdir umboðsmanns barna

Fjármálaráðuneytið
Arnarhvoli við Lindargötu
150 Reykjavík
 
Reykjavík 12. febrúar 2010
 
Efni: Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni
 
Umboðsmaður barna vill koma á framfæri áhyggjum sínum af nýlegri skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Ákveðnar niðurstöður nefndarinnar munu að mati umboðsmanns hafa alvarleg áhrif á heilsu og velferð íslenskra barna og ungmenna.
 
Áfengiskaupaaldur
Í ofangreindri skýrslu kemur meðal annars fram sú hugmynd að endurskoða áfengiskaupaaldur til þess að samræma hann öðrum  réttindum, svo sem lögræði og kosningarétti. Umboðsmaður barna vill benda á að takmörkun á heimild til þess að kaupa áfengi styðst við allt önnur rök en umrædd mannréttindi. Aldurstakmark á áfengiskaupum byggir meðal annars á sjónarmiðum um forvarnir og heilsu ungs fólks. Almennt verður að telja að takmörkun á aðgengi barna og ungmenna á áfengi sé til þess fallin að takmarka neyslu þeirra. Slíkt telur umboðsmaður barna æskilegt, ekki síst í ljósi þeirra skaðlegu afleiðinga sem áfengisneysla hefur á líkamlegan og andlegan þroska ungmenna. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis því líklegra er það til að eiga við áfengisvandamál að stríða seinna á ævinni. Sömuleiðis benda rannsóknir til þess að lækkun áfengiskaupaaldurs geti haft í för með sér aukningu á banaslysum vegna ölvunaraksturs ungs fólks.
 
Sú staðreynd að margir unglingar eru þegar byrjaðir að drekka við 18 ára aldur er að mati umboðsmanns barna ekki röksemd fyrir lækkun áfengiskaupaaldurs. Þvert á móti má ætla að lækkun muni hafa í för með sér að unglingar byrji enn fyrr að drekka. Algengast er að unglingar nálgist áfengi í gegnum félaga sína. Má því leiða að því líkur að aðgengi 16 og 17 ára barna á áfengi myndi vera töluvert auðveldara ef þeim sem eru 18 ára og eldri verður gert heimilt að kaupa áfengi. Lækkun á áfengiskaupaaldri felur ennfremur í sér ákveðna stefnuyfirlýsingu um að áfengi sé ekki skaðlegt ungmennum og til þess fallið að hvetja til jákvæðari viðhorfa til unglingadrykkju. Í ljósi ofangreindra sjónarmiða er ljóst að lækkun á áfengiskaupaaldri samræmist ekki hagsmunum barna. Umboðsmaður barna hvetur því til þess að áfengiskaupaaldurinn haldist óbreyttur.
 
Áfengisauglýsingar
Nefndin leggur til að áfengisauglýsingar verði heimilaðar, þar sem óraunhæft sé að koma í veg fyrir þær. Umboðsmaður barna gagnrýnir þessa tillögu, enda er að hans mati vel hægt að tryggja að banni við auglýsingu áfengis verði framfylgt betur en gert hefur verið. Sem dæmi um það hefur umboðsmaður barna bent á þann möguleika að takmarka auglýsingar á drykkjum sem bera sama heiti eða eru í eins umbúðum og áfengir drykkir.
 
Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingar almennt hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til vörunnar. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þann hóp en aðra. Í samræmi við það benda rannsóknir til þess að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðlað að aukinni neyslu unglinga.
 
Hugmyndir um lækkun áfengiskaupaaldri og takmarkanir á banni við áfengisauglýsingum ganga þvert á þær áherslur sem ríkt hafa í forvörnum hér á landi á undaförnum árum. Vill umboðsmaður barna því hvetja stjórnvöld til þess að standa vörð um hagsmuni barna og íhuga vel þær afleiðingar sem umrædd breyting myndu hafa á heilsu og velferð ungmenna.
 
 
Virðingarfyllst
 
 
 
____________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica