2. júlí 2025

Skýrsla Barna- og fjölskyldustofu um tilkynningar til barnaverndar 2022-2024

Þann 25. júní sl. gaf Barna- og fjölskyldustofa út skýrslu þar sem birtur er samanburður á tilkynningum til barnaverndar á árunum 2022 – 2024.

Í skýrslunni kemur fram að tilkynningum til barnaverndar fjölgaði um 9,9% á árinu 2024 miðað við árið á undan, en fjölgunin er heldur minni en á milli áranna 2022 og 2023, en þá fjölgaði tilkynningum um rúmlega 11%. Flestar tilkynningar 2024 voru vegna vanrækslu á börnum 40,7% og fjölgaði þeim um 8,2% frá árinu áður. 

Hér vekur athygli að hlutfallslega fjölgaði tilkynningum um tilfinningalega vanrækslu mest. Tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum á árinu 2024 fjölgaði um 6,5% miðað við árið á undan. Tilkynningum fjölgaði í öllum undirflokkum ofbeldis nema vegna kynferðisofbeldis þar sem tilkynningum fækkaði um 6,2% á milli ára. Heildar hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 33,7% og er það hærra hlutfall en á árunum 2022 og 2023. Þá kemur fram að tilkynningum vegna áhættuhegðunar fjölgaði um 14,5% árið 2024 samanborið við árið 2023. Mest fjölgaði tilkynningum um neyslu barns á vímuefnum og öðrum efnum sem hafa skaðleg áhrif á heilsu þess og velferð, en slíkum tilkynningum fjölgaði um tæplega 60%. 

Hér er um sláandi hækkun að ræða og að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að greina hvort neysla barna sé almennt að aukast í samræmi við þessar tölur eða hvort þessi aukning er birtingarmynd þess úrræðaleysis sem ríkt hefur innan meðferðarkerfisins. Tilkynningum vegna afbrota barns fjölgaði einnig á milli ára, eða um 8%. Tilkynningum vegna þess að barn beitir ofbeldi fjölgaði um 21,9%. Flestar slíkar tilkynningar (vegna afbrota barns og barn beitir ofbeldi) eru vegna drengja, eða 82,6%.

Að mati umboðsmanns barna er áríðandi að greina þessar upplýsingar nánar. Tölurnar í skýrslunni um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var vegna í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig. Aukningin getur þar af leiðandi verið vegna þess að ítrekað er verið að senda tilkynningar til barnaverndar vegna sömu barnanna. Þrátt fyrir að skýrslan varpi ljósi á ákveðna þróun skortir mikilvægar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að fá heildstæða mynd af stöðunni. Þá liggur t.a.m. ekki fyrir fjöldi barna sem þessar tilkynningar varða. Skortur á aðgengilegum og sundurliðuðum gögnum torveldar markvissa greiningu, stefnumótun og úrbætur í þágu barna.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að til staðar séu áreiðanlegar upplýsingar svo unnt sé að greina þróun stöðunnar og bregðast við með viðeigandi hætti. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica