25. september 2012

Skyldur ríkisins samkvæmt nýjum barnalögum - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent innanríkisráðherra bréf þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af því að með breytingum sem samþykktar voru með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003 fylgi ekki nægt fjármagn sem nauðsynlegt er til að uppfylla skyldur ríkisins samkvæmt hinum nýju lögum.

Umboðsmaður barna hefur sent innanríkisráðherra bréf þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af því að með breytingum sem samþykktar voru með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003 fylgi ekki nægt fjármagn sem nauðsynlegt er til að uppfylla skyldur ríkisins samkvæmt hinum nýju lögum.

Hér er bréf umboðsmanns barna til innanríkisráðherra, dags. 12. september 2012:

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík


Reykjavík, 12. september 2012

Umboðsmaður barna fagnar þeim breytingum sem samþykktar voru með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003. Hins vegar er ljóst að umræddar breytingar munu ekki skila þeim árangri sem stefnt var að nema tryggt verði að þeim fylgi aukið fjármagn. Umboðsmaður barna hvetur því innanríkisráðherra til að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og tryggja það fjármagn sem nauðsynlegt er til að uppfylla skyldur ríkisins samkvæmt hinum nýju lögum. 

Í 12. gr. laga nr. 61/2012 er að finna það nýmæli að foreldrum er skylt að undirgangast sáttameðferð í málum sem varða forsjá, umgengni eða dagsektir. Umboðsmaður barna telur að það sé almennt barni fyrir bestu ef foreldrar geta samið um þá lausn sem hentar best hagsmunum barnsins. Hins vegar er ljóst að í framkvæmd hefur skort töluvert upp á fjármagn til sýslumannsembætta vegna sáttameðferða og oft þurfa foreldrar að ferðast langar vegalendir til þess að sækja slíka þjónustu. Umboðsmaður barna hefur því bent á nauðsyn þess að auka fjármagn til sáttameðferða hjá sýslumönnum, sbr. til dæmis skýrslu umboðsmanns barna til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 2010. Ætla má að enn meiri þörf verði á auknu fjármagni eftir að fyrrnefndar breytingar taka gildi og foreldrum gert skylt að undirgangast sáttameðferð í ákveðnum málum. Aukið fjármagn er sömuleiðis nauðsynlegt til að tryggja að sýslumannsembættin geti boðið foreldrum sáttameðferð án verulegs dráttar og að foreldrar geti leyst úr ágreiningsmálum eins fljótt og hægt er.

Umboðsmaður barna hefur lýst yfir áhyggjum sínum á því hversu langan tíma það tekur að fá skorið úr ágreiningsmálum um umgengni hjá sýslumannsembættum, sbr. m.a. fyrrnefnd skýrsla til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður hefur ennfremur bent á nauðsyn þess að bæta sérfræðiþekkingu innan sýslumannsembætta, svo að tryggt sé að ákvarðanir séu ávallt í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu. Aukin fagþekking er ekki síst mikilvæg í ljósi þess hversu takmörkuð áhrif heimilisofbeldi hefur haft á ákvarðanir í umgengnismálum. Eins og umboðsmaður hefur margoft bent á eru mörg dæmi um að kveðið sé á um að barn eigi að fara í reglubundna umgengni til foreldris, jafnvel þó það eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. Umboðsmaður barna telur að sú nýjung laganna, að sýslumenn geti ráðið sérfræðinga til að aðstoða við lausn mála, geti skapað mikla möguleika fyrir hraðari og faglegri meðferð þar sem tekið er tillit til afstöðu og vilja hvers einasta barns. Hins vegar er ljóst að tryggja þarf aukið fjármagn til þess að sýslumenn geti nýtt sér þann kost í framkvæmd.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á nauðsyn þess að tryggja aukna fræðslu vegna þeirrar nýjungar að dómari geti ákveðið að forsjá barns verði sameiginleg ef hann telur það geta þjónað hagsmunum barnsins, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2012. Í ljósi þeirrar þróunar sem átti sér stað í dómsmálum eftir sambærilegar breytingar á sænskum og dönskum lögum telur umboðsmaður barna mikilvægt að sameiginleg forsjá verði einungis dæmd þegar ljóst þykir að foreldrar geti átt góð samskipti og tryggt að ágreiningur þeirra bitni ekki með neinum hætti á barni. Þá er mikilvægt að árétta sérstaklega að sameiginleg forsjá komi aldrei til greina þegar hætta er á að barnið, foreldri eða annar á heimili barns hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi á heimilinu. Loks telur umboðsmaður mikilvægt að innanríkisráðherra fylgist með því hvernig umræddri heimild verður beitt í framkvæmd og hlutist til um að rannsókn verði gerð á dómaframkvæmd innan tveggja ára.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

Virðingarfyllst,

____________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Afrit:

Alþingi
b.t. fjárlaganefndar
Austurvöllur
150 Reykjavík

Sýslumannafélag Íslands
b.t. Þórólfs Halldórssonar, formanns
Vatnsnesvegur 33
230 Keflavík


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica