9. september 2015

Skráning í Mentor

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf á alla grunnskóla landsins vegna skráningar, varðveislu og aðgangs að upplýsingum um nemendur í Mentor.

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréft til alla grunnskóla landsins vegna skráningar, varðveislu og aðgangs að upplýsingum um nemendur í Mentor. Umboðsmaður fékk í kjölfarið ábendingu um að önnur upplýsinga- og námskerfi séu notuð í sumum skólum. Sömu sjónarmið eiga að sjálfsögðu við um notkun slíkra kerfa. Hér fyrir neðan má lesa bréf umboðsmanns í heild sinni.

Til grunnskóla

 

Reykjavík, 7. september 2015

 

Efni: Mentor

Á undanförnum árum hefur það aukist verulega að skólar noti upplýsinga- og námskerfið Mentor til þess að miðla upplýsingum til bæði foreldra og nemenda. Í dag er kerfið notað í nánast öllum grunnskólum og virðist það almennt hafa reynst vel. Umboðsmaður barna fær þó reglulega fyrirspurnir og ábendingar varðandi skráningu, varðveislu og aðgang að upplýsingum um nemendur í  Mentor. Hefur hann því ákveðið að taka saman nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að starfsfólk grunnskóla hafi í huga við notkun kerfisins.

1.       Friðhelgi einkalífs barna

Þegar metið er hvaða upplýsingar er rétt að skrá í Mentor er ávallt mikilvægt að huga að rétti barna til friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs nær til alls sem lýtur að persónulegum málefnum einstaklinga og felur það meðal annars í sér að hver og einn á rétt á því að ráða yfir eigin lífi og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þær upplýsingar sem eru skráðar á Mentor ber almennt að varðveita og afhenda Þjóðskjalasafni Íslands. Er því æskilegt að kennarar staldri við og íhugi í hverju tilviki fyrir sig hvort eðlilegt sé að skrá viðkomandi upplýsingar. Vissulega eiga forsjáraðilar ríkan rétt til þess að fá upplýsingar um börn sín, en í einhverjum tilvikum gæti verið eðlilegra að hringja í foreldra eða kalla þá á fund. Dæmi um mál sem hefur komið til umboðsmanns barna er dagbókafærsla um að barn hafi kúkað eða pissað í sig. Umboðsmaður barna telur ekki rétt að slík atvik séu skráð í Mentor, heldur er eðlilegra að ræða við foreldra.

Þá er gott að hafa í huga að hlutverk foreldra breytist með auknum aldri og þroska barna. Er því að mati umboðsmanns barna rétt að ræða einungis við barnið sjálft í einhverjum tilvikum þegar um eldri nemendur er að ræða, einkum þegar um er að ræða viðkvæm, persónuleg málefni.

Einnig má benda á að almennt ætti ekki að veita foreldrum upplýsingar um önnur börn í skólanum. Má í því sambandi benda á álit Persónuverndar frá 31. maí 2006, sem hægt er að lesa hér.  

2.       Jákvæð og uppbyggileg skilaboð

Miðað við þær ábendingar sem umboðsmanni barna hafa borist virðist mjög misjafnt hvernig einstaka kennarar nýta sér Mentor. Í einhverjum tilvikum virðist tilhneiging vera sú að skrá einungis athugasemdir þegar starfsfólk skóla er ósátt við hegðun viðkomandi nemanda, t.d. þegar nemandi brýtur gegn skólareglum. Þó að það geti í einhverjum tilvikum verið ástæða til þess að nota Mentor til þess að skrá agabrot nemenda, þarf að mati umboðsmanns barna að ígrunda vel slíkar skráningar og gæta þess að þær séu ekki til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á líðan og sjálfsmynd viðkomandi nemanda.

Viðbrögð við hegðun nemenda er einn þáttur í menntun þeirra. Samkvæmt 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, ber að halda uppi námsaga með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og öðrum réttindum samkvæmt sáttmálanum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sömuleiðis lagt áherslu á að viðbrögð við agabrotum nemenda skuli miða að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu nemenda. Í samræmi við þetta er í 11. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 tekið fram að veita skuli þeim nemendum sem sýna af sér óæskilega hegðun eða slaka ástundin stuðning og að taka skuli tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Umboðsmaður barna hvetur starfsfólk skóla til þess að hafa þessi sjónarmið í huga þegar metið er hvaða upplýsingar eru skráðar í Mentor og með hvaða hætti þær eru orðaðar. Harkalegt og meiðandi orðalag er ekki til þess fallið að stuðla að bættri hegðun, heldur getur þvert á móti haft neikvæð áhrif á viðhorf, hegðun og líðan.

Starfsfólki skóla ber að stuðla eins og hægt er að jákvæðum skólabrag og starfsanda, sbr. meðal annars 30. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Mikilvægur liður í því er að hrósa nemendum fyrir góða hegðun og framfarir. Jákvæð og uppbyggileg skilaboð inn á Mentor geta verið mikilvægt mótvægi við neikvæðar athugasemdir og ýtt undir jákvætt viðhorf nemanda til skólans.  Jákvætt viðhorf til skólans er til þess fallið að stuðla að meiri ánægju, bættri hegðun og aukinni virðingu fyrir öllum aðilum skólasamfélagsins.

3.       Aðgangur foreldra

Reglulega berast umboðsmanni barna spurningar varðandi aðgang forsjárlausra foreldra að Mentor. Samkvæmt 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 á foreldri sem fer ekki með forsjá barns almennt rétt á skriflegum upplýsingum frá skólum. Ber því almennt að veita forsjárlausu foreldri aðgang að Mentor. Hins vegar er heimilt fyrir skóla að hafna slíkri beiðni, ef það er talið mikilvægt út frá hagsmunum barnsins. Þegar tekin er ákvörðun um að synja um aðgang að Mentor þarf að meta aðstæður heildstætt út frá hagsmunum barnsins og gæta þess að allir aðilar máls fái tækifæri til að tjá sig, ekki síst barnið sjálft. Synjun skóla er hægt að skjóta til sýslumanns.

4.       Reglur um notkun

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að grunnskólar vandi vel skráningu upplýsinga í Mentor og gæti þess ávallt að hún sé í samræmi við réttindi nemenda. Einn liður í því að tryggja að starfsfólk skóla þekki þau sjónarmið sem hafa þarf í huga er að hver og einn skóli setji sér reglur um skráningu í Mentor. Við mótun slíkra reglna er æskilegt að hafa samráð við alla aðila skólasamfélagsins, ekki síst nemendur.

Með góðri kveðju,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica