9. febrúar 2015

Skortur á úrræðum fyrir börn með tví- eða fjölþættan vanda

Umboðsmaður barna hefur sent velferðarráðuneytinu bréf þar sem óskað er eftir svörum um það hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við því úrræðaleysi sem ríkir hér á landi fyrir börn sem tví- eða fjölþættan vanda sem þurfa þjónustu frá bæði barnaverndarkerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Umboðsmaður barna hefur sent velferðarráðuneytinu bréf þar sem óskað er eftir svörum um það hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við því úrræðaleysi sem ríkir hér á landi fyrir börn sem tví- eða fjölþættan vanda sem þurfa þjónustu frá bæði barnaverndarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Með bréfinu fylgdi afrit af bréfi um málefni barns. Þó að bréfið hafi ekki innihaldið nöfn eða kennitölur hafði það að geyma viðkvæmar upplýsingar sem ekki er rétt birta opinberlega. Neðangreint bréf til ráðuneytisins gefur þó í stuttu máli ákveðna hugmynd um þann mikla vanda sem sum börn og foreldrar þeirra glíma við.

Bréfið er svohljóðandi.

Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík

 

Reykjavík, 30. janúar 2015
UB:1501/8.1.2

Efni: Skortur á úrræðum fyrir börn með tví- eða fjölþættan vanda

Í meðfylgjandi bréfi, sem inniheldur trúnaðarupplýsingar, er að finna lýsingu á máli barns sem fékk hvorki þjónustu við hæfi hjá barnaverndarkerfinu né heilbrigðiskerfinu, þrátt fyrir að vera í miklum vanda. Þegar umboðsmaður barna fékk ábendingu um umrætt mál taldi hann mikilvægt að skoða það nánar, enda hefur hann á undanförnum árum haft verulegar áhyggjur af stöðu barna með hegðunar- og geðraskanir sem glíma jafnframt við vímuefnavanda. Umboðsmaður barna fundaði með Barnaverndarstofu til þess að fá nánari upplýsingar um málið og óskaði í kjölfarið eftir öllum gögnum málsins.

Í gögnum málsins kemur meðal annars fram að foreldrar barnsins treystu sér ekki til þess að hafa það á heimilinu, þar sem það ætti við alvarlegan vanda að stríða, hafði beitt fjölskylduna ofbeldi og þyrfti því nauðsynlega að komast í úrræði við hæfi. Neyðarvistun Stuðla neitaði að taka við barninu, þar sem starfsfólk taldi það þurfa vera undir höndum lækna. Þá höfnuðu bæði  BUGL og bráðamóttaka geðdeildar að taka við barninu. Önnur úrræði komu ekki heldur til greina vegna vímuefnaneyslu barnsins. Í gögnunum kemur orðrétt fram að það „eina í stöðunni væri [að barnið] færi heim til foreldra, ef að þeir vildu ekki taka við [barninu], væri lítið sem væri hægt að bjóða“. Eins og fram kemur í meðfylgjandi bréfi telur umboðsmaður barna að brotið hafi verið gegn réttindum barnsins í umræddu máli.

Umrætt atvik varpar ljósi á það úrræðaleysi sem ríkir hér á landi fyrir börn sem tví- eða fjölþættan vanda sem þurfa þjónustu frá bæði barnaverndarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Umboðsmaður barna telur óásættanlegt að það sé ekki til staðar viðeigandi úrræði fyrir þessi börn, þar sem boðið er upp á meðferð og heilbrigðisþjónustu við hæfi. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 eiga öll börn rétt á þeirri þjónustu og aðstoð sem velferð þeirra krefst, án tillits til stöðu þeirra. Aðstæður í ríkisfjármálum geta ekki réttlætt brot á grundvallarmannréttindum barna.

Velferðarráðuneytinu er skylt að setja hagsmuni barna í forgang, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans, og tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Umboðsmaður barna óskar hér með eftir svörum um það hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við ofangreindum vanda.

Virðingarfyllst,

____________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barn

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica