30. september 2015

Skólaganga barna hælisleitenda

Umboðsmaður barna hefur sent Útlendingastofnun bréf vegna ábendingar um að meðal hælisleitenda hér á landi séu börn á grunnskólaaldri sem hafa ekki enn fengið að ganga í skóla eða fengið viðeigandi menntun að öðru leyti.

Umboðsmaður barna hefur sent Útlendingastofnun bréf vegna ábendingar um að meðal hælisleitenda hér á landi séu börn á grunnskólaaldri sem hafa ekki enn fengið að ganga í skóla eða fengið viðeigandi menntun að öðru leyti.

Bréfið er svohljóðandi:

Útlendingastofnun

Reykjavík, 9. september 2015
UB: 1509/6.2.0

Efni: Réttur barna til menntunar

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að meðal hælisleitenda hér á landi séu börn á grunnskólaaldri sem hafa enn ekki fengið að ganga í skóla eða fengið viðeigandi menntun að öðru leyti. Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Í samræmi við það er skylt að tryggja öllum börnum á aldrinum 6-16 ára skólavist í grunnskólum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008.  Á þetta einnig við um börn sem sækja um hæli hér á landi, sbr. c-liður 2. mgr.  47. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002.

Umboðsmaður barna telur sérstaklega brýnt að tryggja að börn sem koma hingað til lands sem hælisleitendur fái menntun við hæfi, án tafar. Skólaganga skiptir miklu máli fyrir þroska barna og getur það haft neikvæðar afleiðingar í för sem sér ef barn er utan skóla í vikur eða jafnvel mánuði eftir komu sína til Íslands.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinn hlutverki sínu. Óskar hann því hér með eftir svörum við eftirafandi spurningum.

1)      Eins og staðan er í dag, hversu mörgum börnum á grunnskólaaldri, sem hafa sótt um hæli hér á landi, hefur ekki verið tryggð skólavist?

2)      Hvernig er stefnt að því að tryggja rétt þessara barna til menntunar við hæfi sem fyrst?

Endilega hafið samband í síma 552-8999 ef frekari upplýsinga er óskað.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Bréfið var ítrekað 29. september sl. Þá bárust upplýsingar um að verið væri að leita lausna fyrir þau 17 börn sem eru í þjónustu Útlendingastofnunar. Óskaði Útlendingastofnun eftir fundi með umboðsmanni barna til að fara yfir stöðuna og leiðir til að tryggja skólagöngu barna hælisleitenda. Ákveðið hefur verið að funda snemma í október.

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica