20. október 2010

Skólabragur - Málstofa

Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir málstofu um skólamál þann 1. nóvember nk. í Bratta, sal menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð (KHÍ) frá klukkan 9:30-15:15. Málstofan er öllum opin.

SKÓLABRAGUR
- málstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga um skólamál -               

Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir málstofu um skólamál þann 1. nóvember nk. í Bratta, sal menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð (KHÍ) frá klukkan 9:30-15:15. Málstofan er öllum opin.

Umfjöllunarefni málstofu sambandsins að þessu sinni er skólabragur. Hvað er skólabragur? Hvaða þýðingu hefur skólabragur fyrir líðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks? Hver er þáttur nemenda, foreldra, starfsfólks og grenndarsamfélags í að rækta og viðhalda góðum skólabrag?

Ákveðið var að beina kastljósinu að mikilvægi innra starfs skóla á tímum efnahagsþrenginga og skoða hvernig jákvæður skólabragur getur unnið á móti tímabundnum, neikvæðum áhrifum kreppu og niðurskurðar á skólastarf. Ánægjulegt er að sjá að niðurstöður bæði innlendra[1] og erlendra rannsókna[2] sýna fram á að íslenskum börnum líður betur að jafnaði í dag en áður og dregið hefur úr ýmsum streitueinkennum. Því má leiða líkur að því að foreldrum og starfsfólki skóla hafi farnast vel í að hlífa börnunum við margvíslegu álagi sem af erfiðu efnahagsástandi getur hlotist og þýðingarmikið er að viðhalda því eins og frekast er unnt. Þar spilar skólabragurinn stórt hlutverk. 

Skólabragurinn fær einnig aukið vægi með nýjum skólalögum og sérstaka áherslu í væntanlegri reglugerð um ábyrgð nemenda sem fjallað verður um á málstofunni. Niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á líðan nemenda verða ræddar og sýnt fram á hverju þátttaka sveitarfélaga í forvarnarstarfi skilar. Mikilvægi foreldraþátttöku og virks lýðræðis fyrir skólabraginn eru tíunduð. Móttaka nýrra kennara í starfi setur sinn svip á skólabrag og fleira sem snýr að mannauðsmálum verður tekið til umfjöllunar, þar með talið útfærsla símenntunar starfsfólks. Hvað með þátt nýsköpunar og annarrar sköpunar í skólastarfi? Getur skólabragurinn skapað réttan jarðveg eða jafnvel virkað letjandi?

Markmið með málstofu sambandsins um skólamál er að koma á samráðsvettvangi fræði- og fagmanna, sveitarstjórnarmanna sem ákvarða stefnumótun sveitarfélags og starfsmanna sveitarfélaga sem framfylgja henni og annarra hagsmunaaðila um skólastarf sveitarfélaga. Málstofunni er ætlað að skapa virkan samræðugrundvöll þessara aðila  þar sem ávinningurinn verður bein hagnýting niðurstaðna, hugmynda og upplýsinga inn í stefnumörkun sveitarfélaga og almenna umræðu í skólamálum.

Markhópurinn  samanstendur því af sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skóla- og fræðslumálum, fræðslunefndum, foreldrum auk fræðimanna og sérfræðinga á þessu sviði og öðrum  áhugasömum um bættan skólabrag.   


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica