21. ágúst 2007

Skólabörn í umferðinni

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur tekið saman leiðbeiningar fyrir foreldra og forráðamenn skólabarna um hvernig best sé að undirbúa þau fyrir þátttöku í umferðinni.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur tekið saman leiðbeiningar fyrir foreldra og forráðamenn skólabarna um hvernig best sé að undirbúa þau fyrir þátttöku í umferðinni. Með þessu vonast félagið til að hægt sé að koma í veg fyrir slys á skólabörnum í umferðinni eftir að grunnskólar taka til starfa síðar í þessari viku. Leiðbeiningarnar, sem birtar eru á vefsíðu Landsbjargar, www. landsbjorg.is, eru svohljóðandi:

Í þessari viku hefst starf í grunnskólum landsins. Þá þyngist umferðin og margir nýir vegfarendur taka þátt. Því er mikilvægt að huga að öryggi barna á leið í skóla, sérstaklega þeirra sem yngri eru. Aldrei er of mikið gert af því að fræða yngstu vegfarendurna um hvernig öryggi þeirra er best tryggt á leið þeirra til skóla. Skilaboðin þurfa þó að vera í takt við mismunandi ferðamáta þeirra.

Hjólreiðar:
Fari börn á hjóli til skóla þarf að aðstoða þau við að velja öruggustu leiðina. Leggja þarf áherslu á að hjóla eigi eftir stígum/gangstéttum og fara þarf vel yfir hvar og hvernig á að fara yfir götur. Leggja áherslu á að nota gangbrautir, stoppa áður en farið er yfir þær, líta eftir umferð úr báðum áttum og teyma hjólið yfir. Mikil brotalöm er á því að börn noti hjálm en hann ver fyrir alvarlegum höfuðáverkum í allt að 85% tilfella. Því miður er ekki hægt að segja að allir foreldrar standi sig vel í því að stuðla að notkun þeirra þar sem hjálmlausir foreldrar eru alltof algeng sjón.

Gangandi:
Ef barnið fer gangandi þarf að leggja áherslu á öruggustu leiðina. Ganga með barninu til skóla og fara yfir hvar og hvernig sé best að fara yfir götur og leggja áherslu á að nota gangbrautir, stoppa áður en farið er yfir þær og líta eftir umferð úr báðum áttum. Jafnframt þarf að ítreka við þau að fara sérstaklega varlega ef skyggni er slæmt þar sem þau sjást þá ver. Gæta þarf að því að þau séu alltaf með endurskin á sér, t.d. á úlpu, skóm og tösku.

Akandi:
Ef farið er akandi þá þarf að athuga að öryggisbúnaður barnsins sé í samræmi við stærð þess, en barn á að nota sérstakan öryggisbúnað umfram bílbelti þar til það hefur náð 36 kg. Beltið á alltaf að vera spennt sama hversu stutt vegalengd er ekin, en mörg slysa gerast einmitt í næsta nágrenni við heimilið. Jafnframt þarf að hleypa barninu út gangstéttarmegin og á öruggum stað þannig að það þurfi ekki að fara yfir yfir götu eða bílastæði.

Skólabíll:
Ef farið er með skólabíl þarf að leggja áherslu á að vera ekki of nálægt þegar skólabíllinn kemur, vera í röð og ekki troðast inn. Passa þarf að fjarlægja allar reimar sem hanga t.d. niður úr úlpum þar sem þær geta krækst í þegar farið er út úr bílnum. Einnig þarf að brýna fyrir börnum að fara ekki fram fyrir bílinn.

Endurskin:
Endurskinsmerki eru áhrifarík og ódýr slysavörn. Bílstjóri, sem ekur bíl á 50 km hraða, sér barn með endurskinsmerki úr 136 m fjarlægð, barn í ljósum fötum úr 38 m fjarlægð en dökkklætt barn án endurskinsmerkja úr aðeins 26 m fjarlægð. Til að endurskinsmerki skili tilætluðum árangri verða þau að vera heil, órispuð og hrein en staðsetningin þeirra er einnig mikilvæg. Merkin þurfa að vera neðarlega og fest þannig að bílljós lýsi á þau í sem mestri fjarlægð frá öllum hliðum. Eitt hangandi merki á baki er ekki nóg en merki sem næld eru í úlpuvasa og hanga niður með hliðum gera mikið gagn. Þau virka líkt og blikkljós en eru þeim annmörkum háð að þau geta auðveldlega rifnaðaf flíkinni. Best er því að velja fatnað og töskur sem hafa endurskin.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica