23. ágúst 2007

Skoðanir leikskólabarna

Í fjölmiðlum í gær var sagt frá því að leikskólabörn í leikskólanum Arnarsmára hafi ritað bæjaryfirvöldum í Kópavogi bréf til að mótmæla hugmyndum um byggingu háhýsis á Nónhæð þar sem þau leika sér gjarnan. Að mati umboðsmanns barna er mjög jákvætt að börnum sé gefin kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Mikilvægt er að börn og unglingar fái að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif, ekki síst á nánasta umhverfi sitt og aðstæður. Virk þátttaka barna í lýðræðinu er þýðingarmikil svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar samfélagsins. Þátttaka barna hefur einnig mikið að segja svo að þeir sem eldri eru fái notið hinnar einstöku sýnar þeirra á nánasta umhverfi sitt.

Í 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem gjarnan hefur verið nefnd lýðræðisgreinin, er að finna svohljóðandi ákvæði:  Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Þessi réttur barna til að tjá sig er ekki einungis bundinn við persónuleg málefni heldur nær hann einnig til málefna samfélagsins og þeirra málefna sem varða nánasta umhverfi barna og þau þekkja af eigin raun.

Í fjölmiðlum í gær var sagt frá því að leikskólabörn í leikskólanum Arnarsmára hafi ritað bæjaryfirvöldum í Kópavogi bréf til að mótmæla hugmyndum um byggingu háhýsis á Nónhæð þar sem þau leika sér gjarnan. Að mati umboðsmanns barna er mjög jákvætt að börnum sé gefin kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri og vonar að tekið sé réttmætt tillit til þess sem þau hafa fram að færa.  Vissulega er alltaf vandmeðfarið að miðla skoðunum barna á hlutlausan hátt og til að gera það sem best sé mikilvægt að nota fjölbreyttar aðferðir sem henta börnum.

Sjá frétt á visi.is „Skoðanir leikskólabarna vandmeðfarnar” 22.08.2007


Sem annað dæmi um áhrif leikskólabarna á umhverfið má nefna að fyrir tveimur árum var settur upp útsýnispallur ofan á grjóthleðsluna við Ægisgötu í Reykjanesbæ. Frumkvæðið að þessu framtaki kom frá leikskólabörnum á Tjarnarseli á fundi þeirra með bæjarstjóranum Árna Sigfússyni. Börnin sögðust ekki sjá upp fyrir grjóthleðsluna á gönguferðum sínum við Ægisgötuna og báðu um að settur yrði útsýnispallur ofan á grjóthleðsluna. Hugmyndinni fylgdi teikning sem sýndi mögulega útfærslu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica