17. maí 2016

Skipun talsmanna í barnaverndarmálum

Umboðsmaður barna hefur skorað á félags- og húsnæðismálaráðherra að beita sér fyrir því að skylda barnaverndarnefnda til að skipa barni talsmann í barnaverndarmálum verði skerpt enn frekar og hlutverk talsmanns skýrt nánar í löggjöf.

BladburdardrengurSamkvæmt barnaverndarlögum ber barnaverndarnefnd að taka afstöðu til þess hvort skipa eigi barni talsmann þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls. Þá skal að jafnaði skipa barni talsmann ef til greina kemur að vista barn utan heimilis. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að almennt fari ekki fram raunverulegt mat á því hvort barn hafi þörf fyrir talsmann á fyrri stigum barnaverndarmáls. Þá var einungis 43% barna skipaður talsmaður í þeim tilvikum sem fyrirhugað var að vista barn utan heimilis. Er þetta mikið áhyggjuefni að mati umboðsmanns barna, enda ljóst að einhverjar barnaverndarnefndir eru ekki að uppfylla lagaskyldur sínar að þessu leyti.

Umboðsmaður hefur skilning á því að mikið álag er á starfsfólki barnaverndar og fjármagn til málaflokksins af skornum skammti. Hann telur þó mikilvægt að barnaverndarnefndir og starfsfólk þeirra sé meðvitað um skyldur sínar til þess að tryggja rétt barna til að tjá sig. Þó að starfsfólk barnaverndar sé í flestum tilvikum vel fært um að ræða við börn er ljóst að það getur ekki komið í stað talsmanna, enda er um að ræða handhafa opinbers valds sem þurfa einnig að taka tillit til sjónarmiða foreldra og framkvæma heildarmat á því hvað sé barni fyrir bestu. Hlutlaus talsmaður sem gegnir einungis því hlutverki að koma vilja og skoðunum barns á framfæri getur því verið mikilvæg forsenda þess að réttur barna til að hafa áhrif sé raunverulega virtur. Umboðsmaður barna skorar því á barnaverndaryfirvöld að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort skipa eigi barni talsmann og skipa börnum ávallt talsmann ef til greina kemur að vista barn utan heimilis.

Umboðsmaður barna hefur sent félags- og húsnæðismálaráðherra bréf þar sem  skorað er á  ráðherra að beita sér fyrir því að skylda barnaverndarnefnda til að skipa barni talsmann í barnaverndarmálum verði skerpt enn frekar og hlutverk talsmanns skýrt nánar í löggjöf.

Bréfið er svohljóðandi:

Félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík

Reykjavík, 29. apríl 2016

Efni: Skipan talsmanns fyrir börn í barnaverndarmálum

Réttur barna til þátttöku er tryggður í 1. mgr. 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, en þar kemur fram að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og tekið skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Í 2. mgr. ákvæðisins er áréttað að veita skuli barni tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar.

Á síðustu árum hefur verið lögð sífell aukin áhersla á mikilvægi þess að tryggja raunverulega og virka þátttöku barna í öllum málum sem varða þau. Þátttaka barna skiptir sérstaklega miklu máli í barnaverndarmálum, þar sem oftast er um að ræða viðkvæm mál sem eru til þess fallin að hafa mikil áhrif á líðan og velferð barna til lengri tíma.

Rannsóknir á þroska barna hafa leitt í ljós að börn geta frá unga aldri tekið þátt í ákvarðanatöku um málefni sem þau varða. Börn eru sjálf sérfræðingar í eigin lífi og búa yfir mikilvægri þekkingu og reynslu sem brýnt er að taka tillit til áður en gerðar eru ráðstafanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Allar ákvarðanir barnaverndaryfirvalda skulu taka mið af því sem er barni fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 3. gr. Barnasáttmálans. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað bent á að ekki sé hægt að meta hvað sé barni fyrir bestu án þess að barn hafi fengið raunverulegt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, á eigin forsendum. Auk þess hefur verið sýnt fram á að það efli sjálfsmynd barns að fá tækifæri til að tjá sig og eykur líkurnar á því að það sætti sig við þá ákvörðun sem er tekin, óháð því hvort hún sé í samræmi við vilja þess eða ekki.

Ein leið til að tryggja að réttur barns til að hafa áhrif sé virtur er að skipa barni talsmann, sbr. 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Í ljósi þess hversu íþyngjandi barnaverndarmál geta verið fyrir börn gegna talsmenn oft á tíðum mjög mikilvægu hlutverki. Þeirra hlutverk er að hlusta á sjónarmið barnsins og koma þeim á framfæri við meðferð barnaverndarmála. Samkvæmt fyrrnefndri 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga er barnaverndarnefnd skylt að meta hvort ástæða sé til þess að skipa barni talsmann þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls. Þar kemur auk þess fram að að jafnaði skuli skipa barni talsmann áður en kemur til vistunar utan heimilis. Er því ljóst að barn á ávallt rétt á því að fá talsmann ef til greina kemur að beita því íþyngjandi úrræði að vista það utan heimilis, nema sérstakar ástæður mæla gegn því, svo sem ef um er að ræða mjög ungt barn sem er ekki fært um að mynda eigin skoðanir.  

Í nýlegri grein eftir Hrefnu Friðriksdóttur og Hafdísi Gísladóttur, sem birtist í 2. tbl. 11 árg. 2015 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, er að finna niðurstöður úr rannsókn sem gerð var á ákvörðunum um skipan talsmanns hjá nokkrum barnaverndarnefndum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að almennt fari ekki fram raunverulegt mat á því hvort barn hafi þörf fyrir talsmann á fyrri stigum barnaverndarmáls. Þá var einungis 43% barna skipaður talsmaður í þeim tilvikum sem fyrirhugað var að vista barn utan heimilis. Er þetta mikið áhyggjuefni að mati umboðsmanns barna, enda ljóst að einhverjar barnaverndarnefndir eru ekki að uppfylla lagaskyldur sínar að þessu leyti.

Umboðsmaður barna skorar á félags- og húsnæðismálaráðherra að beita sér fyrir því að skerpt verði á því í lögum að barnaverndarnefndum sé skylt að meta hvort barn hafi þörf fyrir talsmann, ekki einungis við upphaf máls heldur á öllum stigum þess. Þá er mikilvægt að tryggja að barnaverndarnefndir virði þá skyldu sína að tryggja börnum talsmann áður en stefnt er að því að vista þau utan heimilis, hvort sem það er gert með því að skýra löggjöfina enn frekar eða með því að herða eftirlit. Loks telur umboðsmaður barna brýnt að hlutverk talsmanns verði nánar skýrt í löggjöf.  

 

Virðingarfyllst, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Afrit: Barnaverndarstofa

Sambærilegt bréf var sent til allra  barnaverndarnefnda.

Barnaverndarstofa, sem fékk afrit af báðum bréfum, sendi í kjölfarið sérstakt bréf til barnaverndarnefnda, þar sem segir m.a.:

...

Brýnir Barnaverndarstofa það fyrir barnaverndarnefndum að taka sig á í þessum efnum. Í fyrsta lagi ber barnaverndarnefndum að taka afstöðu til þess um leið og ákvörðun hefur verið tekin um könnun hvort skipa eigi barni talsmann, sbr. 3. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Í öðru lagi er kveðið á um það með skýrum hætti að meginreglan er sú að skipa eigi barni talsmann áður en ákvörðun um vistun utan heimilis er tekin, sbr. sama ákvæði laganna og í þriðja lagi er kveðið á um skyldu til þess að skipa barni talsmann ef vistunin er gegn vilja barns sem ekki er orðið 15 ára og forsjáraðilar samþykkja vistun, sbr. 3. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Allar undantekningar frá slíkum meginreglum verður að skýra þröngt og slíkar ákvarðanir er nauðsynlegt að skrá ásamt forsendum þeirra inn í mál viðkomandi barns.

...

Umboðsmaður barna vonar að þessar ábendingar verði til þess að betur verði vandað til barnaverndarmála hvað varðar skipun talmsanna.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica