29. október 2014

Sjálfstæð kæruheimild fyrir börn

Í gær, 28. október, skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum undir sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi þess að Norðurlöndin fullgildi þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem veitir börnum og fulltrúum þeirra sjálfstæðan kærurétt til Barnaréttarnefndarinnar.

Í gær, 28. október, skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum undir sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi þess að Norðurlöndin fullgildi þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem veitir börnum og fulltrúum þeirra sjálfstæðan kærurétt til Barnaréttarnefndarinnar. 

Hér fyrir neðan má finna lauslega þýðingu á yfirlýsingunni. 

Sameiginleg yfirlýsing frá umboðsmönnum barna á Norðurlöndum.

Í ár verður Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 25 ára. Á þessum mikilvægu tímamótum er mikilvægt að huga að bættum lífskjörum fyrir börn og minna á að þau, eins og aðrir, eiga sjálfstæð mannréttindi.

Margt hefur breyst á þeim aldarfjórðungi sem Barnasáttmálinn hefur verið í gildi og oft eru það Norðurlöndin sem eru leiðandi þegar kemur að réttarbótum fyrir börn. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja þó vekja athygli stjórnvalda á því að enn eru stórar og mikilvægar áskoranir til staðar þegar kemur að réttinda- og hagsmunamálum barna.

Dagana 28. til 29. október hélt Norðurlandaráðið þing í Svíþjóð. Norræna ráðherranefndin og Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) skipulögðu málþing í tengslum við þingið, í tilefni af 25 ára afmæli Barnasáttmálans.

Á hverjum degi er brotið gegn réttindum barna á öllum Norðurlöndunum. Börn skortir þekkingu á réttindum sínum. Börn fá ekki tækifæri til að tjá skoðanir sínar áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir sem varða þau. Þá er oft erfitt fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa verið vistuð utan heimilis að leita til þeirra stofnana sem eiga að veita þeim aðstoð, svo sem barnaverndar.

Það er erfitt fyrir þau börn sem brotið er gegn að leita réttar síns. Börn á Norðurlöndunum hafa til dæmis ekki möguleika á að fara með mál til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem löndin hafa enn ekki fullgilt þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann.

 Norðurlöndin hafa hingað til verið leiðandi þegar kemur að réttindum barna og innleiðingu Barnasáttmálans. Þannig hefur að vissu leyti verið litið á Norðurlöndin sem nokkurs konar fyrirmynd annarra landa í þessum efnum. Skiptir því miklu máli fyrir Norðurlöndin að taka hratt og örugglega á öllum þeim áskorunum sem koma upp varðandi réttindi barna.

Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja benda á þrjú málefni sem yfirvöld á Norðurlöndum þurfa að vinna að til þess að styrkja réttindi barna.

Börn verða að fá fræðslu um réttindi sín.

Mikilvægt er að börn fái fræðslu um það frá unga aldri að þau eigi sjálfstæð mannréttindi. Fræðslan getur átt sér stað í leik- og grunnskólum. Það þarf einnig að fræða börn um það hvaða þýðingu þessi réttindi hafa í þeirra daglega lífi. Þá þurfa sérstakar upplýsingar að vera til staðar fyrir börn í viðkvæmri stöðu, svo sem börn sem eru vistuð utan heimilis.

Það þarf að styrkja stöðu Barnasáttmálans.

Á Íslandi, í Finnlandi og í Noregi er búið að lögfesta Barnasáttmálann.  Í Danmörku og Svíþjóð hafa verið lagðar fram tillögur þess efnis en þær hafa enn ekki verið samþykktar. Það er mikilvægt að Barnasáttmálinn sé lögfestur á öllum Norðurlöndum, auk þess sem mikilvægt er að breyta öðrum lögum til að styrkja réttindi barna. Við teljum að innleiðing Barnasáttmálans muni auka áhrif hans í framkvæmd og styrkja stöðu barna sem fullgildra einstaklinga með sjálfstæð mannréttindi. Lögfesting Barnasáttmálans eykur líka kröfurnar á að fræða þá sem vinna með börnum eða koma til með að vinna með börnum um Barnasáttmálann, mismunandi stöðu barna og tilkynningarskyldu til barnaverndar. 

Börn verða að geta leitað réttar síns þegar réttindi þeirra eru brotin.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur tekið fram að það sé grunnforsenda þess að réttindi barna séu virk í framkvæmd að það sé til staðar skilvirk kæruleið fyrir börn sem telja brotið gegn réttindum sínum.  Kæruleiðir skipta máli fyrir bæði fullorðna og börn, en börn eiga oft sérstaklega erfitt með að leita réttar síns.

Í almennri athugasemd nefndarinnar nr. 5 leggur nefndin áherslu á að ríkin tryggi að það séu til kvörtunarleiðir fyrir börn og fulltrúa þeirra sem eru bæði barnvænar og  skilvirkar. Barnasáttmálinn var lengi vel eini stóri alþjóðlegi mannréttindasamningurinn sem bauð ekki upp á kæruleið fyrir einstaklinga. Árið 2014 breyttist þetta, eftir að opnað var fyrir kæruleið til Barnaréttarnefndarinnar.  Þessi alþjóðlega kæruleið mun setja aukinn þrýsting á ríkin til þess að styrkja þau kerfi sem eru til staðar til þess að tryggja réttindi barna.

Barnaréttarnefndin mun geta tekið við kærum frá börnum eða fulltrúum þeirra þegar grunur er á að lög eða framkvæmd aðildarríkis hafi brotið gegn réttindum barnsins samkvæmt Barnasáttmálanum, þegar öll úrræði í aðildarríkinu hafa verið fullreynd.

Við teljum mikilvægt að Norðurlöndin styrki réttindi barna með því að undirrita og fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann sem veitir börnum kæruleið til Barnaréttarnefndarinnar.  Börn á Norðurlöndunum hafa mikla hagsmuni af því að geta leitað réttar síns og fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á réttindum þeirra.

Stokkhólmi, 28 október 2014

Fredrik Malmberg, Svíþjóð
Aaja Chemnitz Larsen, Grænland
Anne Lindboe, Noregur
Margre?t Mari?a Sigurðardóttir, Ísland
Per Larsen, Danmörk
Tuomas Kurttila, Finnland

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica