14. desember 2011

Samvera um hátíðirnar

Sú hátíð sem nálgast er fjölskylduhátíð og hvetur umboðsmaður því fjölskyldur til að njóta þess að vera saman.

Nú þegar líða fer að jólum og áramótum vill umboðsmaður barna leggja áherslu á mikilvægi samverustunda fjölskyldna yfir hátíðarnar. Sú hátíð sem nálgast er fjölskylduhátíð og hvetur umboðsmaður því fjölskyldur til að njóta þess að vera saman.

Góðar samverustundir barna með foreldrum og öðrum fjölskyldumeðlimum eru dýrmætar og mikilvægar börnum. Þær eru liður í uppeldi þeirra og þroska og eru tækifæri til að skapa ánægjulegar minningar. Á þessum tímum er sérstaklega mikilvægt að virða rétt barna til að njóta samvista við báða foreldra sína og aðra fjölskyldumeðlimi. Það er hlutverk foreldra að tryggja rétt barna sem búa ekki með báðum foreldrum að þau fái tækifæri til þess að njóta samvista með því foreldri sem ekki býr á heimilinu.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera og sjái til þess að fjölskyldan skemmti sér saman, bæði á jólum og áramótum, og að hagsmunir barnanna séu alltaf hafðir í fyrirrúmi. Foreldrar eru áhrifamestu fyrirmyndir barna og því er æskilegt að þeir reyni að eiga góð samskipti við aðra og skemmti sér með heilbrigðum hætti.

Búast má við miklu skemmtanahaldi um áramótin og vill umboðsmaður barna því leggja áherslu á að foreldrar virði útivistarreglur og séu vakandi fyrir eftirlitslausum partíum.

Með samstilltu átaki foreldra og forráðamanna er hægt að tryggja það að jól og áramót verði farsæl og skapi góðar minningar fyrir börn og unglinga. 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica