8. apríl 2020

Samræmd skráning skólasóknar

Sem viðbrögð við umræðu um skólaforðun hefur umboðsmaður barna sent bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og menntamálastofnunar varðandi samræmda skráningu skólasóknar barna í grunnskóla. 

Skólaforðun og skólasókn er efni sem umboðsmaður barna hefur á löngum tíma beitt sér fyrir meðal annars með bréfaskrifum, málþingum og fundum.

Samkvæmt minnisblaði sem Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, lagði fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkur þann 11. febrúar, er óljóst hvar 179 börn, sem eru með lögheimili í Reykjavík, stundi nám. Það er ljóst að þessi staða á ekki að geta komið upp og mikilvægt er að gripið verði til aðgerða, enda geta stjórnvöld ekki staðið við skuldbindingar sínar um að tryggja rétt barna til menntunar ef ekki er haldið utan um skráningu barna með markvissum hætti.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að kannað verði hvort þessu sé eins farið í öðrum sveitarfélögum. Þá ætti menntamálastofnun að hafa frumkvæði að því að kalla eftir slíkum upplýsingum frá sveitarfélögum enda er hlutverk stofnunarinnar að annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og sinna framkvæmd laga og reglugerða á því sviði. Þá hefur Menntamálastofnun heimild til þess að kalla eftir upplýsingum um fræðslumál frá stjórnvöldum og öðrum stofnunum.

Í bréfi til ráðuneytisins er einnig áréttuð fimm punkta áætlun sem umboðsmaður sendi á síðasta ári til ráðuneytisins sem svar hefur ekki enn borist við. Sú áætlun miðar fyrst og fremst að því að tryggja rétt barna til menntunar eins og kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 28. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. En samkvæmt e lið 1. mgr. 28. gr. Barnasáttmálans er sú skylda lögð á stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi. Í áætlun umboðsmanns er lagt til að mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðist í vinnu við að kortleggja hversu umfangsmikill vandi skólaforðun raunverulega er og hverjar séu helstu ástæður þess að börn sæki ekki skóla.

 

Umboðsmanni barna ber að vinna að því að stjórnvöld taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þá ber umboðsmanni að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna sbr. 3. gr. laga nr. 83/1994.

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica