8. september 2023

Samráð vegna sameiningar MA og VMA

Umboðsmaður barna sendi bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna sameiningar MA og VMA og samráðs við nemendur.

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna sameiningar Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskóla Akureyrar. Þar kemur fram að umboðsmanni barna hafi borist erindi frá fulltrúum nemenda við Menntaskólann á Akureyri þar sem nemendur lýsa yfir óánægju sinni með skort á samráði við nemendur vegna sameiningar MA og VMA. 

Í bréfi umboðsmanns kemur fram að mat á því sem er börnum fyrir bestu eigi ávallt að liggja til grundvallar ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera og að slíkt mat eigi að framkvæma áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Jafnframt kemur fram að hluti af slíku mati sé að veita börnum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra. 

Börn eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri

Það er réttur barna að vera höfð með í ráðum við skipulag menntunar og skylda stjórnvalda að veita þeim raunverulega tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif. Þá óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvort mat hafi verið lagt á bestu hagsmuni barna við ákvarðanatöku um sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskóla Akureyrar. Hvort nemendur hafi fengið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvort samráð hafi verið haft við nemendur og þá með hvaða hætti. 

Bréf umboðsmanns barna til mennta- og barnamálaráðherra

Uppfært 27. september 2023

Ekkert svar hefur borist frá ráðuneytinu og því hefur embættið ítrekað bréf sitt til mennta- og barnamálaráðherra með ósk um að erindinu verði svarað eins fljótt og auðið er. 

Uppfært 18. október 2023

Ekkert svar hefur enn borist frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekun. 

Uppfært 1. desember 2023

Svar barst frá ráðuneytinu með tölvupósti þann 30. nóvember 2023

Svar mennta- og barnamálaráðuneytisins


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica