20. ágúst 2013

Samráð vegna lagafrumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

Í bréfi starfshóps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, dags. 11. júlí sl., er leitað eftir afstöðu umboðsmanns barna til ýmissa álitaefna um staðgöngumæðrun. Umboðsmaður svaraði bréfinu með almennum hætti með bréfi dags. 20. ágúst 2013.

Í bréfi starfshóps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, dags. 11. júlí sl., er leitað eftir afstöðu umboðsmanns barna til ýmissa álitaefna um staðgöngumæðrun. Umboðsmaður svaraði bréfinu með almennum hætti með bréfi dags. 20. ágúst 2013.

Reykjavík 20. ágúst 2013
UB: 1308/4.1.1

Efni: Samráð vegna lagafrumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

Í bréfi starfshóps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, dags. 11. júlí sl., er leitað eftir afstöðu umboðsmanns barna til ýmissa álitaefna um staðgöngumæðrun.  Umboðsmaður barna hefur ekki tekið beina afstöðu til þeirra álitaefna sem spurt er um. Hann telur þó mikilvægt að árétta að við úrlausn allra álitaefna sem varða börn með einum eða öðrum hætti skal það sem er barni fyrir bestu ávallt hafa forgang, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna hefur bent á mikilvægi þess að gæta fyllstu varkárni þegar tekin er ákvörðun um hvort heimila eigi staðgöngumæðrun hér á landi og hefur dregið í efa að slíkt sé í samræmi við hagsmuni barna. Ef ákveðið verður að heimila staðgöngumæðrun telur umboðsmaður barna þó sérstaklega mikilvægt að tryggja að hún verði eingöngu í velgjörðarskyni. Annars er hætta á að litið verði á börn sem söluvöru, en slíkt er ekki í samræmi við mannlega reisn þeirra.

Öll börn eiga rétt á að þekkja uppruna sinn, sbr. meðal annars 7. gr. Barnasáttmálans. Í núgildandi lögum er þessi réttur barna ekki tryggður, enda er gert ráð fyrir því að kynfrumugjafar geti óskað nafnleyndar í 2. mgr. 4. gr. laga um tæknifrjóvgun nr. 55/1996. Umboðsmaður barna hefur margoft hvatt til þess að umræddum lögum verði breytt og börnum tryggður réttur til að þekkja uppruna sinn, meðal annars í skýrslu sinni til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 2010. Ef ákveðið verður að heimila staðgöngumæðrun í íslenskum lögum telur umboðsmaður barna sérstaklega mikilvægt að taka fram í lögunum að börn eigi rétt á því að fá upplýsingar um uppruna sinn. Má í því sambandi hafa hliðsjón af 26. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar, en þar kemur fram að skýra skuli barni frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé ættleitt og ekki síðar en við 6 ára aldur. Umboðsmaður barna telur að sambærileg regla ætti að gilda um tæknifrjóvgun og staðgöngumæðrun. Þá ætti að mati umboðsmanns barna að tryggja rétt barns til að fá upplýsingar um erfðafræðilega foreldra þ.e. kynfrumugjafa og líffræðilega foreldra þ.e. þá konu sem gekk með barnið.

Að lokum vill umboðsmaður enn og aftur benda á að réttur barna til að eiga góða foreldra á að ganga framar hugsanlegum rétti fullorðinna til að eignast börn. Í því sambandi er einnig mikilvægt að hafa í huga að fjölmörg börn út um allan heim þurfa á góðum foreldrum að halda. Væri því æskilegra að mati umboðsmanns barna að íslenska ríkið myndi beita sér fyrir því að gera samninga við fleiri ríki um ættleiðingu og auðvelda þannig ættleiðingu barna, fremur en að heimila staðgöngumæðrun.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica