6. október 2021

Salvör kjörin formaður ENOC

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, var kjörinn formaður ENOC samtaka umboðsmanna barna í Evrópu, á ársfundi samtakanna þann 29. september sl. Salvör tekur við formennskunni á ársfundi samtakanna að ári en sá fundur verður haldinn í Reykjavík. 

Salvör hefur setið í stjórn samtakanna síðustu tvö ár en hún er fyrsti íslenski umboðsmaður barna til að eiga sæti í stjórn ENOC og fá kosningu sem formaður samtakanna.

Í samtökum umboðsmanna barna í Evrópu eiga flest embætti umboðsmanna barna í Evrópu aðild og eru þau afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Í tengslum við árlegan ársfund samtakanna, sem nú var haldinn í Aþenu, er jafnframt haldin ráðstefna um tiltekið meginþema. Nýafstaðin ráðstefna fjallaði um áhrif Covid-19 á börn en á fundinum í Reykjavík á næsta ári verður umfjölllunarefnið loftslagsbreytingar út frá réttindum barna. Á vegum samtaka evrópskra umboðsmanna starfar einnig ENYA, evrópsk samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst hinum árlega fundi. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna á Íslandi hefur á síðustu árum tekið virkan þátt í starfi ENYA en það er einstakur vettvangur fyrir fulltrúa þeirra til að eiga samtal við börn annars staðar í Evrópu og skiptast á sjónarmiðum og reynslu.

Um kjörið segir Salvör Nordal, nýkjörinn formaður samtaka umboðsmanna barna

Það er mikill heiður að vera kjörinn formaður ENOC og við hjá embætti umboðsmanns barna erum mjög spennt fyrir að halda ráðstefnuna á næsta ári og fá að bjóða til Íslands fulltrúum barna frá fjölmörgum Evrópulöndum ásamt helstu stofnunum sem vinna að réttindum þeirra. Samtökin hafa verið að eflast mikið með hverju árinu og sérstaklega hefur verið ánægjulegt að sjá aukna þátttöku barna á fundunum þar sem þeirra sjónarmið fá sífellt meira vægi. Umræðuefni næsta árs er loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á mannréttindi barna, með sérstakri áherslu á rétt þeirra til þátttöku, en mörg þeirra hafa látið til sín taka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Ítarefni:

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica