23. apríl 2008

Reykjavíkurráð ungmenna fundar með borgarstjórn

Fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna lögðu í gær, 22. apríl 2008, fram tillögur sínar á árlegum fundi með borgarstjórn. Tillögur ungmennanna voru m.a: að reisa styttu af Vigdísi Finnbogadóttur, bætt tungumálakennsla fyrir innflytjendur, betri aðstaða við Hljómskálagarð, úrbætur vegna manneklu í leikskólum, fleiri „leyfisveggi" fyrir veggjakrot/list og síðast en ekki síst aukið vægi ungmennaráða.

Fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna lögðu í gær, 22. apríl 2008, fram tillögur sínar á árlegum fundi með borgarstjórn. Þetta er í sjöunda sinn sem slíkur fundur er haldinn en tillögurnar snertu jafnt ungmenni sem aðra borgarbúa.

Tillögur ungmennanna, sem koma frá öllum hverfum borgarinnar, voru m.a: að reisa styttu af Vigdísi Finnbogadóttur, bætt tungumálakennsla fyrir innflytjendur, betri aðstaða við Hljómskálagarð, úrbætur vegna manneklu í leikskólum og fleiri „leyfisveggi" fyrir veggjakrot/list. Síðasti ræðumaðurinn á fundinum var Gunnar Ingi Magnússon frá ungmennaráði Vesturbæjar og ræddi hann um aukið vægi ungmennaráða. Gunnar Ingi flutti tillögu um bætta aðstöðu á hjóla- og göngustíg á Ægissíðunni fyrir tveimur árum en fékk aldrei svar við tillögunni. Þáverandi borgarstjóri lofaði að þetta yrði komið í gang á innan við viku en svo hafi ekkert gerst. Gunnar Ingi sagðist einfaldlega vilja að borgarstjórn tæki mark á ungmennum og skuldbindi sig til að svara þeim. Hann sagði borgarstjórn sýna slæm vinnubrögð þegar hún standi ekki við stóru orðin. Hún eigi að sýna gott fordæmi þar sem unga kynslóðin muni að endingu taka við stjórn landsins og þá sé slæmt ef hún taki upp þessi vinnubrögð.

Virk þátttaka barna í lýðræðinu er mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar samfélagsins. Þátttaka barna er ekki síður mikilvæg svo að þeir sem eldri eru fái notið hinnar einstöku sýnar þeirra á nánasta umhverfi sitt. Ungmennaráðin eiga m.a. að vinna í þeim tilgangi að auðvelda börnum að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila innan sveitarfélaganna.

Umboðsmaður barna hefur í mörg ár barist fyrir því að sveitarfélögum verði gert skylt að skapa unglingum vettvang til að hafa áhrif á samfélagið. Í mars 2007 voru samþykkt ný æskulýðslög á Alþingi. Þar segir í 2. mgr. 11. gr.:

Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

Nú eru starfandi ungmenna- eða unglingaráð í nokkrum sveitarfélögum landsins. Umboðsmaður barna vonar að enn fleiri sveitarfélög komi á fót ungmennaráðum og að vægi ályktana ungmennanna verði aukið og að störfum þeirra verði sýnd meiri virðing í framtíðinni.

Nánar um ungmennaráð hér.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica