14. janúar 2015

Réttur barna til upplýsinga um sig sjálf

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvort börn geti fengið upplýsingar um sig án þess að fara í gegnum foreldra og hversu gömul þau þurfa að vera til að fá aðgang að upplýsingunum.

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvort börn geti fengið upplýsingar um sig án þess að fara í gegnum foreldra og hversu gömul þau þurfa að vera til að fá aðgang að upplýsingunum. Er þá t.d. átt við upplýsingar frá skólum, aðilum í frítímasþjónustu, sýslumannsembættum, fjármálastofnunum, lögreglu, sjúkrastofnunum og barnavernd.

Það er meginregla að einstaklingar eiga rétt á að fá aðgang að upplýsingum um sjálfan sig, sbr. meðal annars 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 18. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Hægt er að lesa meira um upplýsingaréttinn hér á heimasíðu Persónuverndar.

Í ofangreindum lögum er ekki beinlínis tekið á því hvort og þá við hvaða aldur barn getur farið sjálft með upplýsingarétt sinn. Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 fara forsjáraðilar með lögformlegt fyrirsvar barna sinna til 18 ára aldurs. Sumir telja þetta fela í sér að foreldrar þurfi ávallt að koma fram fyrir hönd barna sinna, til dæmis þegar óskað er eftir upplýsingum. Þó að foreldrar fari með forsjá og lögformlegt fyrirsvar barna sinna er mikilvægt að hafa í huga að börn eru fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Bæði  Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og önnur íslensk lög gera því ráð fyrir því að börn öðlist stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir, sbr. meðal annars 12. gr. Barnasáttmálans, 3. mgr. 1. gr og 6. mgr. 28. gr.  barnalaga nr. 76/2003.

Umboðsmaður barna telur að börn eigi almennt sjálfstæðan rétt til upplýsinga um sig sjálf. Ljóst er að ung börn geta almennt ekki beitt þessum rétti sínum án aðkomu foreldra. Eftir því sem börn eldast og þroskast eru meiri líkur á því að þau geti sjálf óskað eftir upplýsingum um sig, án þess að samráð sé haft við foreldra. Er þetta einnig í samræmi við álit Persónuverndar. Í úrskurði Persónuverndar nr. 2014/656 kemur fram að það sé ekki skilyrði þess að geta farið með upplýsingarétt sinn að vera lögráða og að börn og unglingar geti farið með hann hafi þau til þess nægan þroska eða hafi vísa aðstoð í þessum efnum.

Í einstaka sérlögum er kveðið á um sjálfstæðan rétt barna til upplýsinga. Sem dæmi má nefna að í ákveðnum tilvikum eru börn sjálf aðilar að barnaverndarmálum frá 15 ára aldri og eiga í samræmi við það rétt á aðgangi að gögnum máls, sbr. barnaverndarlög nr. 80/2002. Þá er í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997  tekið fram að börnum skuli veittar upplýsingar að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska og alltaf þegar þau hafa náð 16 ára aldri, sbr. 25. gr. laganna.

Að öðru leyti er erfitt að svara því við hvaða aldur börn geta beitt upplýsingarétti sínum sjálf. Almennt þarf að meta það hverju sinni með hliðsjón af aldri og þroska barns sem og eðli þeirra upplýsinga sem um ræðir. Til hliðsjónar má benda á að í íslenskum lögum er gjarnan gert ráð fyrir því að við 12 ára aldur hafi börn öðast nægilegan þroska til að hafa áhrif á eigið líf og taka þátt í ákvörðunum, t.d. um nafnbreytingu og ættleiðingu. Telur umboðsmaður barna því rétt að ganga út frá því að börn sem náð hafa 12 ára aldri geti almennt beitt rétti sínum til að óska eftir upplýsingum. Umboðsmaður telur þó jafnframt að yngri börn geti átt sjálfstæðan rétt til upplýsinga í ákveðnum tilvikum, til dæmis frá grunnskólum og íþrótta- og tómstundastarfi.

Í sumum tilvikum er heimilt er að takmarka aðgang barna að gögnum, t.d. ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir barnsins sem fer fram á aðgang að gögnum, sbr. til dæmis 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Þetta sjónarmið á jafnt við um börn og fullorðna.

Upplýsingar geta líka verið þess eðlis að þær eru ekki taldar við hæfi barna, til dæmis þegar ástæða er til að ætla að þær geti haft skaðleg áhrif á líðan barns. Við slíkar aðstæður getur verið ástæða til að gera kröfu um samþykki foreldra áður en upplýsingar eru veittar barni, enda ber foreldrum skylda til þess að tryggja börnum sínum viðeigandi vernd. Þar sem börn geta almennt borið mikla ábyrgð frá 15 ára aldri, sbr. sakhæfi, telur umboðsmaður barna þó mikið þurfa að koma til svo hægt sé að meina barni sem náð hefur 15 ára aldri aðgang að upplýsingum um sig. Í þessu samhengi má benda á að reglum um það hverjir mega fá afhent sakavottorð barna var breytt árið 2014 eftir athugasemd frá umboðsmanni barna. Nú geta börn því sjálf fengið sitt eigið sakavottorð útgefið. Ekki er þörf á samþykki forsjáraðila í þessu efni þegar um börn á aldrinum 15-18 er að ræða.

Börn eiga stigvaxandi rétt á að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Í samræmi við ofangreind sjónarmið telur umboðsmaður barna mikilvægt að tryggja börnum sjálfstæðan rétt til upplýsinga um sig sjálf svo framarlega sem það brjóti ekki gegn réttindum annarra eða skaði barnið. Umboðsmaður þiggur allar ábendingar sem varða upplýsingarétt barna. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica