2. desember 2015

Réttur barna til ráðgjafar og trúnaðarsamskipta

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að virða sjálfstæðan rétt barna á öllum aldri til þess að leita eftir ráðgjöf og aðstoð frá fagaðilum, svo sem sálfræðingum, án samþykkis foreldra.

Fullordinn HjalparÍ gegn um tíðina hefur oft verið litið svo á að foreldrar þurfi að samþykkja alla þjónustu sem börn þiggja.

Í ljósi breyttra viðhorfa, aukinnar þekkingar og þróunar í mannréttindamálum er hins vegar í auknum mæli viðurkennt að börn eigi að njóta sjálfstæðra réttinda til þess að leita sér aðstoðar og eiga trúnaðarsamskipti við fagaðila, óháð vitneskju eða afstöðu foreldra sinna.

Í þessu sambandi er mikilvægt að gera greinarmun á ráðgjöf og meðferð, en foreldrar sem fara með forsjá þurfa að samþykkja nauðsynlegar meðferðir fyrir börn undir 16 ára aldri, sbr. 26. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um 12. gr. Barnasáttmálans segir í lauslegri þýðingu að aðildarríki þurfi að innleiða lög og reglugerðir sem tryggja börnum rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns, þegar þörf er á vegna öryggis eða velferðar barns. Börn geta haft þörf á slíkri ráðgjöf, t.d. þegar þau hafa reynslu af ofbeldi eða vanrækslu á heimili sínu, hafa þörf á ráðgjöf um getnaðarvarnir eða þegar börn og foreldrar eru ekki sammála um aðgang barna að heilbrigðisþjónustu. Rétturinn til ráðgjafar og aðstoðar er óháður aldri til að veita samþykki í heilbrigðismálum og ætti ekki að vera takmarkaður með aldursmörkum.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að virða sjálfstæðan rétt barna á öllum aldri til þess að leita eftir ráðgjöf og aðstoð frá fagaðilum, svo sem sálfræðingum, án samþykkis foreldra. Börn eiga sjálfstæðan rétt til trúnaðar af hálfu fagaðila, þó með þeim takmörkunum sem leiðir af tilkynningarskyldu þeirra til barnaverndar. 

Töluvert er um að foreldrar og fagfólk sem starfar með börnum hafi samband við umboðsmann barna til að spyrja hvort foreldrar verði alltaf að vera með í ráðum þegar barn óskar eftir því að ræða í trúnaði við sálfræðing eða heilbrigðisstarfsfólk. Hér á vef umboðsmanns barna er að finna svar umboðsmanns við spurningunni „Mega börn fara ein til sálfræðings?“.

Þá má einnig benda á ritið Friðhelgi einkalífs (PDF) en þar er fjallað um rétt barna til trúnaðar opinberra starfsmanna í víðara samhengi.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica