15. nóvember 2023

Réttur barna til menntunar

Umboðsmaður minnir á rétt barna til menntunar og rétt barna til hvíldar og tómstunda í kjölfar þeirra jarðhræringa sem nú eiga sér stað í Grindavík. 

Í ljósi þeirra aðstæðna og óvissu sem nú ríkir í Grindavík vill umboðsmaður barna minna á 29. gr. Barnasáttmálans þar sem fjallað er um rétt barna og aðgengi þeirra til menntunar. Þar kemur fram að öll börn eigi rétt á menntun sem aðildarríkjum ber að tryggja. Þá minnir embættið einnig á 31. gr. Barnasáttmálans um rétt barna til hvíldar, tómstunda og frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

Hin daglega rútína getur verið mikilvæg börnum og sérstaklega á þeim tímum sem óvissa ríkir. Það eflir öryggiskennd og veitir skjól í erfiðum aðstæðum. Verkefnið er vissulega stórt en það er von umboðsmanns barna að leitað verði allra leiða til að tryggja öllum börnum viðeigandi og farsæla skólavist í góðu samráði við skólasamfélag Grindavíkur eins fljótt og auðið er. Þá minnir umboðsmaður á að börn eiga alltaf rétt á að koma sinni skoðun á framfæri í málefnum sem þau varða. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica