3. júní 2013

Réttur barna til að fá eigið sakavottorð án samþykkis foreldra

Umboðsmaður barna hefur sent ríkissaksóknara bréf þar sem bent er á að mikilvægt sé að hann endurskoði 8. gr. reglna nr. 680/2009 þannig að skýrt verði að börn á aldrinum 15 til 18 ára geti fengið eigið sakavottorð án samþykkis forsjáraðila.

Umboðsmaður barna hefur sent ríkissaksóknara bréf þar sem bent er á að mikilvægt sé að ríkissaksóknari endurskoði 8. gr. reglna nr. 680/2009 þannig að skýrt verði að börn á aldrinum 15 til 18 ára geti fengið eigið sakavottorð án samþykkis forsjáraðila.  Bréfið er svohljóðandi:

Efni: 8. gr. reglna nr. 680/2009, um sakakrá ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 227. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 á hver og einn rétt á að fá afhent sakavottorð eða upplýsingar um eigin sakaferil. Í ákvæðinu eru ekki gerð nein skilyrði um aldur viðkomandi og nær ákvæðið því jafnt til sakhæfra barna og fullorðinna. Er þetta ákvæði í samræmi við þá meginreglu að einstaklingar eiga rétt á að fá aðgang að upplýsingum um sjálfan sig.

Í 8. gr. reglna nr. 680/2009, um sakakrá ríkisins, er hins vegar vikið frá framangreindri meginreglu og kveðið á um að sakavottorð handa þeim sem er yngri en 18 ára skuli aðeins látið í té ef fyrir liggur samþykki forsjáraðila. Umboðsmaður barna getur ekki séð að umrætt ákvæði eigi sér fullnægjandi lagastoð, enda gengur það þvert á fyrrnefnt ákvæði laga um meðferð sakamála.

Börn eiga stigvaxandi rétt til þess að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir, eins og meðal annars kemur fram í 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í samræmi við það telur umboðsmaður barna mikilvægt að tryggja börnum sjálfstæðan rétt til upplýsinga um sig sjálf. Þar sem börn verða sakhæf 15 ára má ætla að löggjafinn telji að börn séu frá þeim aldri fær um að axla ákveðna ábyrgð og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Í ljósi þess sem að framan greinir telur umboðsmaður barna mikilvægt að ríkissaksóknari endurskoði 8. gr. reglna nr. 680/2009 þannig að skýrt verði að börn á aldrinum 15 til 18 ára geti fengið eigið sakavottorð án samþykkis forsjáraðila. 

Virðingarfyllst,

____________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica