21. janúar 2014

Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 584/2010

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir ábendingum og athugasemdum um tillögur að breytingum á reglugerð nr. 584/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 21. janúar 2014.

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir ábendingum og athugasemdum um tillögur að breytingum á reglugerð nr. 584/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 21. janúar 2014:

Efni: Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 584/2010.
 
Vísað er í tölvupóst, dags. 19. desember 2013, þar sem óskað er eftir athugasemdum við breytingu á ofangreindri reglugerð.  
 
Umboðsmaður barna telur þær breytingar sem eru fyrirhugaðar með ofangreindri reglugerð vera jákvæðar. Hann fagnar því sérstaklega að litið hafi verið til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við breytingarnar.
 
Að gefnu tilefni vill umboðsmaður barna benda á að fjölmörg börn í grunnskólum landsins fá ekki þann stuðning sem þau þurfa. Þó að hugtakið nemendur með sérþarfir samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar sé nokkuð víðtækt virðist það ekki túlkað þannig í framkvæmd. Þannig virðist takmarkaður stuðningur í boði fyrir börn sem eru ekki með „rétta“ greiningu eða börn sem eru á svokölluðu gráu svæði. Eins og staðan er í dag getur það tekið töluvert langan tíma að komast í greiningu. Þá er ljóst að sum börn þurfa mikla aðstoð þó þau falli ekki beinlínis inn í ákveðin greiningarviðmið. Ennfremur er mikilvægt að börnum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður eða glíma við annars konar hindranir sé tryggð aðstoð . Umboðsmaður barna telur brýnt að mennta- og menningarmálaráðuneytið bregðist við og leitist við að tryggja að allir nemendur fái þann stuðning sem þeir þurfa, óháð greiningu. 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica