21. janúar 2014

Reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir ábendingum og athugasemdum um tillögur að breytingum á reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 21. janúar 2014.

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir ábendingum og athugasemdum um tillögur að breytingum á reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 21. janúar 2014:

Efni: Reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009.
 
Vísað er í tölvupóst, dags. 19. desember 2013, þar sem óskað er eftir athugasemdum við breytingu á ofangreindri reglugerð.
 
Umboðsmaður barna fagnar þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar með ofangreindri reglugerð. Umboðsmaður vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
 
Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um samráð vegna undirbúnings, gerðar og breytingum á skólahúsnæði. Umboðsmaður telur jákvætt að tekið sé fram að hafa skuli samráð við skólaráð, en þar eiga tveir nemendur að eiga sæti. Þegar vísað er til annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins telur hann þó ástæðu til að árétta að að leita skuli samráðs við börn, til dæmis með því að leita til nemendafélaga í skólahverfinu eða ungmennaráðsins í hverfinu eða sveitarfélaginu. Má í þessu sambandi benda á 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, sem tryggir börnum rétt á að hafa áhrif á öll mál sem þau varða með einum eða öðrum hætti.
 
Í 3. gr. reglugerðarinnar er í upphafi tekið fram að húsnæði og skólalóð skuli uppfylla kröfur laga nr. 92/2008 um grunnskóla, reglugerðar nr. 657/2009, aðalnámskrár, laga um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 en einnig kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Umboðsmaður telur að það gæti verið til bóta að nefna sértaklega í upptalningunni í upphafi greinarinnar reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002, jafnvel þó að hún falli undir orðalagið „kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda“. Reglugerð nr. 942/2002 kveður á um mikilvæg atriði varðandi öryggismál á skólalóðum en þó virðist töluvert vanta upp á að farið sé að ákvæðum hennar í einhverjum sveitarfélögum, t.d. ákvæði um aðalskoðun, þrátt fyrir ábendingar heilbrigðiseftirlitanna. 

Í 4. gr. reglugerðarinnar virðist ekki gert ráð fyrir því að það geti verið fleiri en 28 nemendur í vinnurými. Þó að umboðsmaður barna myndi gjarnan vilja að til væru reglur um hámarksfjölda nemenda í bekk er það ekki raunin. Er staðreyndin því sú að oft eru fleiri en 28 nemendur í bekk eða hóp. Þá geta vinnurými verið nýtt fyrir marga bekki í einu við ákveðnar aðstæður. Telur umboðsmaður því ástæðu til að tiltaka hversu stór vinnurými þurfi að vera þegar nemendur eru fleiri en 28.
 
Að lokum vill umboðsmaður nota tækifærið til að benda á að hann telur að þörf sé á frekari kynningu á þeim reglugerðum sem snúa að aðbúnaði og öryggi barna í skólastarfi. Þar gæti verið vert að kanna möguleika á samstarfi umhverfisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica