3. desember 2013

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskaði eftir athugasemdum eða ábendingum við drög að reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 3. desember 2013.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskaði eftir athugasemdum eða ábendingum við drög að reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 3. desember 2013:

Reykjavík, 3. desember 2013


Efni: Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum

Vísað er í tölvupóst, dags. 13. nóvember sl., þar sem óskað er eftir athugasemdum eða ábendingum við drög að reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum.

Umboðsmaður barna vill byrja á því að fagna því að til standi að setja ofangreinda reglugerð, enda er mikilvægt að tryggja betur hagsmuni barna í framhaldsskólum.

Hugtakanotkun
Í reglugerðinni er ýmist talað um nemendur eða ungmenni. Umboðsmaður barna telur ástæðu til að skýra enn frekar hvað sé átt við með hugtakinu ungmenni. Má í því sambandi benda á að hugtakið ungmenni er ekki alltaf notað með sama hætti í lögum. Sem dæmi má nefna að í barnaverndarlögum nr. 80/2002 er ungmenni notað um einstaklinga frá 18 til 20 ára en í reglugerð um vinnu barna og unglinga nr. 426/1999 á það einungis við um börn undir 18 ára aldri. 

Umboðsmaður barna vill ennfremur benda á að réttara er að nota hugtakið forsjáraðilar en forráðamenn, sbr. hugtakanotkun barnalaga nr. 76/2003. Þá má benda á að hugtakið forráðamenn/forsjáraðilar á ekki við þegar um er að ræða lögráða ungmenni sem náð hafa 18 ára aldri, sbr. til dæmis orðalag í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar.

Ákvæði reglugerðarinnar
Umboðsmaður barna er almennt  ánægður með efnisákvæði reglugerðarinnar. Hann hefði þó gjarnan viljað sjá ákvæði um umsjónarkennara og ábyrgð þeirra gagnvart nemendum. Má til dæmis benda á 3. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um ábyrgð og skyldur starfsfólks skóla. Umboðsmaður telur ástæðu til að taka fram í umræddu ákvæði að umsjónarkennari skuli upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldra nemenda undir 18 ára aldri, sbr. orðalag í 3. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Í 9. gr. reglugerðarinnar er fjallað um viðbrögð við brotum á skólareglum. Eins og fram kemur í ákvæðinu er mikilvægt að taka tillit til aðstæðna hvers og eins þegar viðbrögð við agabrotum eru metin. Telur umboðsmaður því ástæðu til að taka sérstaklega fram  að óheimilt sé að nota skráningakerfi þannig að uppsafnaðir refsipunktar leiði sjálfvirkt til agaviðbragða, sbr. orðalag í fyrrnefndri reglugerð um grunnskóla.

Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um misbrest á hegðun nemenda. Í ákvæðinu er ekki fjallað um hegðun nemenda utan skólatíma, eins og er gert í sambærilegu ákvæði fyrrnefndri reglugerð um grunnskóla. Þó að hegðun nemenda utan skólatíma teljist almennt ekki brot á skólareglum telur umboðsmaður barna ástæðu til að gera undantekningu þar á, til dæmis ef um er að ræða einelti eða ofbeldi sem á sér stað á leið nemanda til og frá skóla.

Á nokkrum stöðum í reglugerðinni,  til dæmis 11. og 14. gr., er tekið fram að framhaldsskóla sé skylt að hafa samband við foreldra eða forsjáraðila nemenda undir 18 ára aldri. Í ljósi þess að foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna til 18 ára aldurs er eðlilegt að foreldrar séu almennt látnir vita, til dæmis ef börn þeirra brjóta skólareglur. Umboðsmaður barna telur þó ástæðu til að veita svigrúm að þessu leyti og kveða á um að hafa skuli samband við foreldra, nema ástæða sé til að ætla að vitneskja foreldra geti verið skaðleg fyrir nemanda.

Í 13. gr. reglugerðarinnar er meðal annars fjallað um vímuefnaneyslu nemenda. Umboðsmaður barna telur brýnt að skólameistarar fari varlega í að synja nemanda um skólavist vegna vímuefnaneyslu, án þess að jafnframt sé gripið til annarra úrræða. Telur umboðsmaður því ástæðu til að taka það fram í umræddri grein að ef grunur er um vímuefnaneyslu nemanda undir 18 ára aldri skuli skólameistari leita eftir samstarfi við foreldra og barnavernd og reyna koma viðkomandi barni til aðstoðar. Þá er mikilvægt að þeir nemendur sem þurfa að fá leyfi úr framhaldsskólum til að leita sér aðstoðar vegna vímuefnaneyslu hafi svigrúm til þess og geti hafið þar nám að nýju þegar meðferð lýkur.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á hversu mikilvægt það er að framhaldsskólar geri sér grein fyrir skyldum sínum gagnvart nemendum, sérstaklega þeim sem eru undir 18 ára aldri. Brýnt er að framhaldsskólar virði fræðsluskyldu sína og vísi ekki nemendum úr skóla nema slíkt sé nauðsynlegt, til dæmis til að vernda hagsmuni annarra nemenda. Umboðsmaður barna telur jákvætt að áréttað sé í reglugerðinni að nemanda sem vikið hefur verið úr skóla eigi rétt á að sækja um skólavist í öðrum skóla, sbr. 3. mgr. 15. gr. Hann telur þó ástæðu til að ganga enn lengra og kveða á um að mennta- og menningarmálaráðuneytinu sé skylt að finna skólavist eða eftir atvikum annað úrræði fyrir börn sem vísað hefur verið úr framhaldsskóla.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica